
Hafrún Rakel Halldórsdóttir og stöllur hennar í Bröndby unnu fyrsta deildarleik sinn á tímabilinu er liðið bar sigurorð af Odense, 4-0, á heimavelli í dag.
Bröndby, sem hefur verið eitt af bestu liðum Danmerkur síðustu ár, hafði ekki unnið í fyrstu þremur leikjum sínum, en tókst loksins að sækja langþráðan sigur í dag.
Hafrún Rakel kom inn af bekknum í stöðunni 4-0 þegar um það bil sex mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma.
Bröndby er í 5. sæti með 5 stig eftir fjóra leiki.
Ingibjörg Sigurðardóttir, sem gekk í raðir Freiburg frá Bröndby í sumar, átti ekkert sérstaklega góðan dag í vörn þýska liðsins er það gerði 1-1 jafntefli við Werder Bremen í 1. umferð þýsku deildarinnar í dag.
Freiburg tók forystuna eftir hálftímaleik en þegar um tíu mínútur voru eftir af leiknum sá Ingibjörg rauða spjaldið fyrir að brjóta á leikmanni Bremen í vítateignum.
Ingibjörg togaði aðeins í Larissu Muhlhaus og var í kjölfarið send af velli. Við fyrstu sýn virkaði dómurinn fremur harður, en ekkert VAR er í deildinni og gat því dómarinn ekki skoðað atvikið betur.
Muhlhaus steig á punktinn og tryggði Bremen stig.
Óheppileg byrjun hjá Ingibjörgu sem verður í leikbanni þegar Freiburg fær Söndru Maríu Jessen og félaga hennar i Köln í heimsókn.
Athugasemdir