Englandsmeistarar Liverpool ætla ekki að kaupa enska varnarmanninn Marc Guehi frá Crystal Palace í janúar og stefnir frekar á að fá hann frítt næsta sumar. Þetta segir Paul Joyce, sem talinn er sá allra áreiðanlegasti þegar það kemur að Liverpool.
Liverpool og Palace náðu samkomulagi um kaup og sölu á Guehi undir lok gluggans.
Skiptin fóru það langt að Fabrizio Romano henti í frasann „Here we go!“ en á síðustu stundu ákvað Palace að hætta við söluna.
Fjölmiðlar halda því fram að Oliver Glasner, stjóri Palace, hafi hótað því að hætta ef Guehi yrði seldur. Steve Parish, stjórnarformaður Palace, var settur á milli steins og sleggju, en hann vildi ekki missa Glasner og hætti því við söluna.
Liverpool er ekki hætt að eltast við Guehi, en það kemur ekki lengur til greina að kaupa hann í janúarglugganum,
Guehi verður samningslaus á næsta ári og er stefnan sett á að fá hann á frjálsri sölu.
Samkeppnin verður enn meiri um Guehi sem hefur verið að gera frábæra hluti með Palace. Barcelona, Bayern München, Real Madrid og Manchester City verða öll í baráttunni ásamt Tottenham og fleiri félögum.
Chris Bascombe hjá Telegraph segir að Liverpool hafi engar áhyggjur. Félagið hefur átt mörg samtöl við Guehi og umboðsmann hans og er það fullvisst um að hann vilji eyða næstu árum sínum hjá Englandsmeisturunum.
Athugasemdir