Fernandes gæti farið frá Man Utd á næsta ári - Stórliðin berjast um Guehi - Fer Andrey Santos frá Chelsea?
   sun 07. september 2025 12:30
Brynjar Ingi Erluson
Þarf að byrja fjörutíu leiki til að skipta alfarið yfir til Bayern
Mynd: Bayern Munchen
Uli Hoeness, stjórnarmaður Bayern München, hefur opinberað nokkur mikilvæg atriði í lánssamningi Nicolas Jackson, en ef marka má orð hans virðist það nánast ómögulegt fyrir framherjann að gera skipti sín varanleg á næsta ári.

Bayern sótti Jackson frá Chelsea undir lok gluggans en um tíma var algerlega óvíst hvort hann færi til Þýskalands.

Félögin höfðu náð samkomulagi um að Jackson færi á láni og inn í því var kaupákvæði, en Chelsea bannaði síðan leikmanninum að fara í læknisskoðun eftir að Liam Delap meiddist.

Chelsea vildi heldur selja Jackson og náðu félögin á endanum samkomulagi og var kaupskylda sett í samninginn, en Hoeness segir nánast útilokað fyrir Jackson að uppfylla skilyrðin fyrir kaupskyldunni.

Hann sagði í viðtali að Bayern hafi borgað 13,5 milljónir evra fyrir lánsdvölina og að Jackson hafi sjálfur þurft að greiða þrjár milljónir úr eigin vasa.

Til að gera skiptin varanleg þarf Jackson að byrja 40 leiki í öllum keppnum.

„Hann mun aldrei ná því,“ sagði Hoeness.

Til samanburðar þá byrjaði Harry Kane, aðalframherji Bayern, 41 leik á síðustu leiktíð. Þrír leikir hafa þegar verið spilaðir og því alveg rétt það sem Hoeness segir. Jackson mun líklega aldrei uppfylla skilyrðin fyrir varanlegum félagaskiptum.
Athugasemdir
banner