Fernandes gæti farið frá Man Utd á næsta ári - Stórliðin berjast um Guehi - Fer Andrey Santos frá Chelsea?
   sun 07. september 2025 11:30
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Lárus Orri: Það eina sem fólkið á Akranesi fyrirgefur ekki
Tveir slakir leikir í röð hjá ÍA.
Tveir slakir leikir í röð hjá ÍA.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Ég held að menn séu búnir að komast yfir það núna'
'Ég held að menn séu búnir að komast yfir það núna'
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
'Við erum bara búnir að koma okkur í þessa stöðu sjálfir'
'Við erum bara búnir að koma okkur í þessa stöðu sjálfir'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Þegar ÍA á sjö leiki eftir óspilaða er liðið átta stigum auk markatölu frá því að vera í öruggu sæti í Bestu deildinni. Liðið á leik til góða gegn liðunum í kringum sig, heimaleik gegn Íslandsmeisturum Breiðabliks sem spilaður verður núna á fimmtudag.

Fótbolti.net ræddi við Lárus Orra Sigurðsson, þjálfara ÍA, og var hann spurður út í stöðuna.

„Við uppi á Skaga gerum okkar alveg grein fyrir því að við erum á síðustu sénsunum okkar. Staðan er þannig að við eigum tvo leiki fram að tvískiptingu, ef úrslitin falla með okkur þá gætum við kannski verið 2-3 stigum frá öruggu sæti, en til þess að það gerist verðum við að fara vinna leiki."

„Það væri hægt að telja upp endalaust af afsökunum, allt á móti okkur og allur sá pakki, en við erum bara búnir að koma okkur í þessa stöðu sjálfir. Við sem hópur höfum talað saman, farið vel yfir þetta saman, og við erum sammála um að síðustu tveir leikir, gegn Víkingi og ÍBV, séu verstu leikirnir síðan ég kom til félagsins. Það vantaði upp á það að menn væru að gefa sig 100% í verkefnið,"
segir Lárus Orri.

„Á móti ÍBV (2-0 tap) var vinnusemin einfaldlega ekki nógu góð. Það var í fyrsta skiptið frá því að ég kom sem það virkaði á mig að hugurinn væri ekki á bakvið þetta hjá liðinu. Við gerum okkur allir grein fyrir því sem störfum í þessu uppi á Skaga að það eina sem fólkið á Akranesi fyrirgefur ekki er þegar menn gefa sig ekki 100% í verkefnið. Frá þessum tímapunkti og út 25. október munum við koma til með að gefa okkur alla í öll verkefni sem við förum í."

Það hefur verið smá slit á leikjadagskrá ÍA. Rúmlega tvær vikur voru á milli leikja liðsins í lok júlí og í lok ágúst liðu tvær vikur milli leikja ÍA þar sem leik liðsins gegn Breiðabliki var frestað vegna Evrópuþátttöku Breiðabliks. Sá leikur verður spilaður núna á fimmtudag.

„Ég fór í viðtal eftir leikinn gegn Val þar sem ég sagðist ekki hafa neinar áhyggjur af liðinu, og ég raunverulega hafði þær ekki. Svo spilum við mjög vel framan af á móti FH, spilum gegn Víkingi og svo tekur við löng pása. Á þeim tíma föllum við ansi langt á eftir. Það er ansi erfitt fyrir hausinn að hafa ekki leiki til að spila, sjá að án þess að stíga inn á völlinn er bilið upp í liðin fyrir ofan orðið stærra. Það er samt alltaf hægt að benda á eitthvað sem er mjög erfitt, erum ekki að finna einhverjar afsakanir, en ég sá mun á liðinu þegar við vorum lentir svolítið langt á eftir liðunum fyrir ofan. Ég held að menn séu búnir að komast yfir það núna og við verðum klárir á móti Blikum á fimmtudaginn," segir Lárus Orri.

Hann tók við ÍA fyrir tveimur og hálfum mánuði síðan. Hann skrifaði undir samning við ÍA sem gildir út þetta tímabil. Það var tekin ákvörðun þá að framhaldið yrði ekki rætt fyrr en eftir tímabilið og það hefur ekki breyst.
Besta-deild karla
Lið L U J T Mörk mun Stig
1.    Valur 21 12 4 5 52 - 33 +19 40
2.    Víkingur R. 21 11 6 4 40 - 27 +13 39
3.    Stjarnan 21 11 4 6 41 - 34 +7 37
4.    Breiðablik 20 9 6 5 36 - 31 +5 33
5.    FH 21 8 5 8 39 - 33 +6 29
6.    Fram 21 8 4 9 30 - 29 +1 28
7.    ÍBV 21 8 4 9 23 - 27 -4 28
8.    Vestri 21 8 3 10 22 - 24 -2 27
9.    KA 21 7 5 9 25 - 38 -13 26
10.    KR 21 6 6 9 42 - 44 -2 24
11.    Afturelding 21 5 6 10 28 - 36 -8 21
12.    ÍA 20 5 1 14 20 - 42 -22 16
Athugasemdir