Greenwood orðaður við Liverpool - Bournemouth vill Nwaneri lánaðan - Glasner ræðir við Palace áður en hann tekur ákvörðun
   fim 08. janúar 2026 12:04
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Mikill áhugi á Valdimar og Helga erlendis frá
Valdimar Þór Ingimundarson.
Valdimar Þór Ingimundarson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Helgi Guðjónsson.
Helgi Guðjónsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það eru talsverðar líkur á því að þeir Valdimar Þór Ingimundarson og Helgi Guðjónsson haldi erlendis í atvinnumennsku í vetur. Mikill áhugi er á þeim erlendis frá eftir frábært tímabil í Bestu deildinni.

Valdimar var valinn besti leikmaður Íslandsmótsins og Helgi var valinn íþróttakarl Víkings fyrir frammistöðu sína á liðnu tímabili. Báðir voru þeir í liði ársins hér á Fótbolti.net.

Mörg erlend félög hafa sýnt Valdimar áhuga. Crawley Town, sem er í fallbaráttu í ensku D-deildinni (League Two) reyndi að fá hann á láni en Víkingur hafnaði þeirri tilraun. Albanska félagið Egnatia, sem hefur unnið deildina tvö tímabil í röð og tapaði í Evrópueinvígum gegn Víkingi 2024 og Breiðabliki 2025, reyndi líka að fá Valdimar en því tilboði var hafnað.

Félög frá Þýskalandi, Belgíu, Noregi, Hollandi og Úkraínu hafa spurst fyrir um hann og samkvæmt heimildum Fótbolta.net eru talsverðar líkur á því að fleiri tilboð munu berast í sóknarmanninn.

Það eru sömuleiðis mörg félög með augastað á Helga sem spilaði sem vinstri bakvörður á liðnu tímabili. Það hafa borist fyrirspurnir um hann en engin formleg tilboð á þessum tímapunkti. Félög frá Noregi, Svíþjóð, Póllandi, Írlandi og Króatíu fylgjast með stöðu mála og kæmi ekki á óvart ef Víkingum berst tilboð í Helga í glugganum.

Þeir eru báðir fæddir árið 1999.
Athugasemdir
banner
banner
banner