Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
banner
   mán 08. mars 2021 12:00
Elvar Geir Magnússon
Níu af tólf félögum í efstu deild vildu tvískipta deild - „Við töpuðum 5-0"
Frá Laugardalsvelli.
Frá Laugardalsvelli.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Haraldur Haraldsson.
Haraldur Haraldsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Þetta var stórtap. Við töpuðum 5-0 fyrir okkur sjálfum," segir Haraldur Haraldsson, fyrrum formaður ÍTF, um niðurstöðuna á ársþingi KSÍ í lok síðasta mánaðar.

Haraldur, sem er framkvæmdastjóri Víkings, var gestur í útvarpsþættinum Fótbolti.net á X977 á laugardaginn þar sem meðal annars var farið yfir niðurstöðuna á ársþinginu.

Báðar tillögurnar um breytingar á fyrirkomulagi efstu deildar karla voru felldar en önnur þeirra var sett saman af sérstökum starfshópi KSÍ. Sú tillaga var að spila áfram í tólf liða deild en eftir tvöfalda umferð yrði deildin tvískipt þar sem sex efstu liðin myndu mætast aftur innbyrðis og þau sex í neðri hlutanum.

Haraldur greindi frá því í þættinum að ef aðeins hefði verið kosið milli þeirra félaga sem eru í deildinni hefði sú tillaga verið samþykkt.

„Það voru 9 af 12 félögum í Pepsi Max-deildinni sem vildu fara í þetta fyrirkomulag með tvískipta deild. Þrjú vildu fara í fjórtán lið," segir Haraldur en atkvæði félaga í neðri deildum gerðu að verkum að tillagan var felld.

Háum fjárhæðum kastað fyrir borð
Upphaflega voru sendar inn fjórar tillögur á þingið um breytt fyrirkomulag, þó tvær af þeim hafi síðan verið dregnar til baka.

„Það var nokkuð sérkennilegt í ljósi þess hvernig málin voru afgreidd á þinginu árið á undan, þar var samþykkt að stofna þennan hóp sem kæmi með tillögu. En hvernig deildakeppnin endaði 2020 spilar rullu í þessu og einhver félög sem voru að leita eftir einhverri leiðréttingu á síðasta sumri," segir Haraldur.

Mörg félög í Lengjudeildinni flykktust á bak við tillögu Fram um að fjölga í fjórtán liða deild, sem myndi þá auka möguleika þeirra liða á að geta spilað í efstu deild.

„Það tókust á blokkir og það var smölun í aðdraganda þingsins og svo meðan á þinginu stóð, það voru símtöl og sms í gangi. Það var verið að smala á bak við tillögu Fram um fjórtán liða deild. En stuðningur Pepsi Max-liðanna og þeirra venslafélaga dugði alltaf til að fella þá tillögu, í mínum augum var það ljóst," segir Haraldur. Eftir að tillaga Fram hafði verið felld var tillaga starfshópsins líka felld.

„Það kom mér hinsvegar á óvart að svo hafi hin tillagan líka verið felld, svona sannfærandi líka, þegar rætt var um í aðdraganda þingsins að það hafi verið nauðsynlegt að fjölga leikjum. Með því tel ég að við höfum verið að fórna 30-50 milljónum á ári í réttindagreiðslur. Við erum að kasta háum fjárhæðum fyrir borð."

Haraldur tók undir það að í aðdraganda kosninganna hefðu stuðningsmenn tillögu starfshópsins gert mistök með því að láta ekki meira í sér heyra.

„Það vantaði fleiri raddir hjá þeim félögum sem styðja þessa tillögu. Því þær voru margar úr hinni áttinni."

ÍTF þarf að ná ákveðnum þroska
Það er ákveðin sundrung í fótboltahreyfingunni en í síðustu viku bárust fréttir af því að félög í efstu deild hefðu fundað eftir þingið. Talað var um að rætt hafi verið um að slíta sig út úr ÍTF.

„Það er alveg rétt að strax eftir þingið hafi ákveðin félög verið í samtali um stöðuna. Við ákváðum að hittast á fimmtudeginum og fleiri lið bættust í hópinn. Mér fannst Gaupi (Stöð 2) ganga of langt í sinni umfjöllun um að það væri verið að stofna ný samtök. Það var ekkert umræðan þarna, það var verið að taka stöðuna. Það eru aðilar sem eru óánægðir og menn vilja finna sameiginlegan flöt á þessu máli. Menn vilja sjá hvernig hægt er að leysa úr þessu því það er smá eftirsjá hjá öllum hvernig þetta endaði," segir Haraldur.

En hvað er hægt að gera í stöðunni?

„Það er kannski möguleiki á því, ef víðtæk sátt næst um það, að félögin skrifi undir sáttmála um að við ætlum að gera breytingar á næsta þingi. Við gætum því unnið eftir því í allri vinnunni í sumar og það yrði samþykkt á næsta þingi og tæki gildi 2022. Það er alveg möguleiki. En í hreyfingunni er það þannig að stjórnarmenn koma og fara og það eru ákveðnar hættur í svona samkomulagi, það þarf að halda," segir Haraldur.

Hann segir að félög í ÍTF gangist undir sáttmála um að leita leiða til lausna ef ágreiningur kemur upp. Það sé eitthvað sem hafi ekki alveg verið farið eftir.

„Ég get talað fyrir hönd Víkings og sagt að við viljum sá ÍTF áfram með óbreyttu sniði. Við þurfum bara að ná ákveðnum þroska. Kannski er ekki óeðlilegt að ágreiningur komi upp þegar við erum í fyrsta sinn að fara í gegnum þessa stóru skafla. Það er gjarnan þannig þegar peningar eru í myndinni," segir Haraldur.

Hægt er að hlusta á spjallið við Harald í heild sinni í spilaranum hér að neðan en það hefst eftir 52 mínútur. Þar er meðal annars talað um sölu á sjónvarpsrétti deildarinnar og hvort rétt sé að félög í neðri deildum eigi að ráða því hvernig spilað sé í efstu deild.
Útvarpsþátturinn - Ótímabær Pepsi Max spá og boltapólitík
Athugasemdir
banner
banner
banner