Mikið hefur gustað um stjórnarmenn félaga hérlendis síðustu vikur. Ráðningar og viðskilnaðir sem betur hefðu mátt standa hafa verið mikið í umræðunni síðustu daga.
Sú umræða virtist ná hámarki um síðastliðna helgi eftir að Srdjan Tufegdzic, fyrrum þjálfari Vals, mætti í viðtal og gagnrýndi að Valur væri að ræða við aðra þjálfara á meðan hann var við stjórnartaumana.
Álíka dæmi sem betur hefði mátt standa að er viðskilnaður Vals við Sigurð Egil Lárusson, framkoma FH gagnvart Heimi Guðjónssyni, fundur sem varðaði meistaraflokk sem var haldinn án vitundar þjálfara Breiðabliks, ásamt viðtali sem formaður Breiðabliks fór í nokkrum klukkustundum áður en Halldór Árnason fékk sparkið.
Mönnum var heitt í hamsi þegar umræðan beindist að stjórnarmönnum félaganna í lokaþætti Innkastsins á tímabilinu.
„Svona er þetta bara í þessum íslenska fótbolta sem við elskum allir. FH-ingar gerðu það nákvæmlega sama við Heimi Guðjónsson og Valur gerir nú við Túfa. Það var ekki jafn mikið fjaðrafok vegna þess að þeir tækluðu þetta fyrir þremur umferðum, eftir að Magnús Hakur (Harðarson) úthúðaði þeim í þætti hérna á Fótbolta.net,“ sagði Valur Gunnarsson, sérfræðingur Innkastsins.
Sæbjörn Steinke tekur því næst til máls: „Síðan kemur vesen á öðrum stöðum og þetta gleymist.“
Valur Gunnarsson svarar um hæl: „Svo er eins og það sé hver hendi uppi á móti annarri í stjórninni hjá Breiðabliki. Síðan er kannski skipt um stjórn og þá virðast nýir menn koma inn sem hafa enga reynslu og við endum í sama spíral aftur og aftur.
Við erum að fara að skipta um þjálfara og þeir segja öllum nema þjálfurunum. Þetta er svo fáránlegt. Það hefði verið hægt að tækla þetta allt öðruvísi á Hlíðarenda. Mér finnst stjórnir í íslenskri knattspyrnu vera einhver hópur fólks sem gerir bara eitthvað.“
„Sem er samt svo geðveikt,“ skýtur Sæbjörn Steinke inn og uppsker mikinn hlátur frá Elvari Geir og Vali Gunnarssyni.


