Samkvæmt heimildum Fótbolta.net verður Mikael Neville Anderson ekki með landsliðinu í komandi leikjum vegna hnémeiðsla. Mikael þurfti að fara af velli gegn Bröndby í lokaumferð dönsku deildarinnar um liðna helgi eftir að hafa fengið högg á hnéð.
Meiðslin voru í fyrstu talin alvarleg en samkvæmt heimildum er um einhvers konar tognun að ræða og verður Mikael frá í nokkrar vikur. Ekki er víst að hann geti byrjað að æfa þegar æfingar hefjast að nýju hjá AGF eftir stutt sumarfrí.
Mikael var valinn í 25 manna hóp fyrir leikina gegn Slóvakíu og Portúgals. Landsliðsþjálfarinn Age Hareide sagði á fréttamannafundi að það væri gott að hafa 25 manna hóp því þá þyrfti ekki að kalla menn inn í hópinn ef upp kæmu meiðsli.
AGF endaði í 3. sæti dönsku deildarinnar eftir ótrúlega endurkomu í lokaumferðinni og fer í forkeppni Sambandsdeildarinnar á næsta tímabili. Mikael átti gott tímabil í Danmörku og var í lykilhlutverki í liði AGF.
Hann er 24 ára miðjumaður sem á að baki 20 landsleiki og hefur í þeim skorað tvö mörk. Hann kom inn á í báðum leikjum landsliðsins í mars.
Athugasemdir