Newcastle vill kaupa Elanga - Memphis til Corinthians - Barca ætlar að fá Nico Williams - Casemiro og Eriksen mega fara - Kovacic íhugar framtíð sína...
banner
   fim 08. ágúst 2024 16:23
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Víkingar að mæta köldu liði úr slakari deild
Víkingar spila við Flora Tallinn frá Eistlandi í kvöld.
Víkingar spila við Flora Tallinn frá Eistlandi í kvöld.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Víkingar eru býsna raunhæfum möguleika að komast lengra.
Víkingar eru býsna raunhæfum möguleika að komast lengra.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Á meðan Besta deildin á Íslandi er í baráttu um að bæta við sig Evrópudeildarsæti, þá er fótboltinn í Eistlandi í mikilli lægð. Eistneska deildin er tíu sætum fyrir neðan þá íslensku á styrkleikalista UEFA þegar þessi frétt er skrifuð.

Íslands- og bikarmeistarar Víkings mæta Flora Tallinn frá Eistlandi í forkeppni Sambandsdeildarinnar á eftir.

„Núna er það Flora Tallinn sem er sigursælasta félag Eistlands. Við berum virðingu fyrir verkefninu og mætum auðmjúkir til leiks, en við ætlum okkur áfram," sagði Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkinga, við Fótbolta.net í gær.

„Þeir (möguleikarnir) eru mjög góðir. Við þurfum að eiga toppleiki en ég held að okkar toppleikur muni fara langa leið með að fara áfram. En hafandi sagt það er þér refsað meira í Evrópuleikjum. Við þurfum að vera með öll skynfærin á hreinu til að eiga möguleika. Við erum búnir að skoða þá mjög vel. Þeir eru kannski ekki ósvipaðir okkur; þeir eru með góða blöndu af reynsluboltum sem hafa spilað fleiri tugi landsleikja og svo eru efnilegir strákar. Þeim hefur ekki gengið vel í deildinni núna en við þekkjum það af eigin raun að það þarf lítið til að snúa genginu við."

Flora Tallinn er vissulega sigursælasta félagið í Eistlandi og þeir hafa unnið deildina í fjögur af síðustu fimm skiptum. Tímabilið sem er núna í gangi hefur þó verið erfitt.

Liðinu hefur gengið illa heima fyrir og er 16 stigum frá toppliði Levadia. Víkingar mættu einmitt Levadia í forkeppni Meistaradeildarinnar sumarið 2022 og unnu 6-1 sigur. Vonandi - fyrir íslenskan fótbolta - verður eitthvað svipað upp á teningnum í kvöld.

Flora tapaði þá stórt gegn Celje frá Slóveníu í forkeppni Meistaradeildarinnar áður en liðið lagði Virtus frá San Marínó í framlengingu. Það þurfti framlengingu til þess.

Möguleikar Víkinga ættu að vera býsna góðir þar sem þeir eru að mæta köldu liði úr mun lakari deild. Það er mikilvægt fyrir íslensku meistarana að taka góð úrslit í kvöld og taka það með sér í útileikinn í næstu viku.

Ef Víkingar fara áfram úr þessu einvígi þá mæta þeir tapliðinu úr einvígi Rigas FS frá Lettlandi og Santa Coloma frá Andorra um sæti í riðlakeppni Sambandsdeildarinnar.
Athugasemdir
banner
banner