Tíu leikmenn Inter komu til baka gegn Mónakó
Það fóru nokkrir spennandi æfingaleikir fram í dag og í kvöld þar sem evrópsku stórveldin eru að klára undirbúning fyrir nýtt keppnistímabil.
Chelsea mætti Bayer Leverkusen í spennandi slag og skóp sigur þökk sé tveimur nýjum leikmönnum liðsins, Brasilíumönnunum Estevao Willian og Joao Pedro.
Estevao var að spila sinn fyrsta leik á Stamford Bridge og skoraði eftir aðeins 18 mínútna leik, en hann er 18 ára gamall og bindur Chelsea miklar framtíðarvonir við táninginn. Joao Pedro, sem kom gífurlega sterkur inn í HM félagsliða í sumar, innsiglaði sigurinn á lokamínútunum. Lokatölur 2-0.
Chelsea sýndi mikla yfirburði gegn lærisveinum Erik Ten Hag.
Inter lenti þá undir gegn AS Mónakó og var Hakan Calhanoglu rekinn af velli með tvö gul spjöld. Staðan var því 1-0 í leikhlé og ítalska stórveldið einum leikmanni færri. Maghnes Akliouche skoraði mark Mónakó.
Tíu leikmenn Inter mættu grimmir til leiks út í seinni hálfleikinn og gáfu ekki tommu eftir. Þeim tókst að eiga magnaðan leik og snúa stöðunni við þrátt fyrir að vera einum færri, svo lokatölur urðu 2-1. Lautaro Martínez og nýi maðurinn Ange-Yoan Bonny sáu um markaskorunina.
Seinni hálfleikurinn var ótrúlega opinn og skemmtilegur en sóknarmenn Mónakó fundu hvorki leið framhjá Yann Sommer né Raffaele Di Gennaro, markvörðum Inter.
Tvö önnur úrvalsdeildarlið mættu til leiks að lokum, þar sem Brentford gerði jafntefli við Borussia Mönchengladbach á meðan Newcastle og Espanyol skildu jöfn.
Báðum leikjum lauk með 2-2 jafntefli, þar sem Fábio Carvalho og Mikkel Damsgaard skoruðu mörk Brentford eftir að hafa lent undir.
Franck Honorat skoraði jöfnunarmark fyrir Gladbach undir lokin.
Hákon Rafn Valdimarsson lék allan leikinn á milli stanga Brentford en hafði lítið að gera. Hann gat lítið gert í mörkunum sem liðið fékk á sig en báðar marktilraunir Gladbach sem hæfðu rammann enduðu í netinu.
Espanyol klúðraði á sama tíma vítaspyrnu og náði að gera jöfnunarmark á lokamínútunum.
Matt Targett og Jacob Murphy skoruðu mörkin fyrir Newcastle.
Augsburg og Pisa skildu að lokum jöfn, 2-2, þar sem Steve Mounié fyrrum leikmaður Huddersfield bjargaði Augsburg með tvennu undir lokin.
Chelsea 2 - 0 Bayer Leverkusen
1-0 Estevao ('18)
2-0 Joao Pedro ('90)
Monaco 1 - 2 Inter
1-0 Maghnes Akliouche ('2)
1-1 Lautaro Martinez ('60)
1-2 Ange-Yoan Bonny ('80)
Rautt spjald: Hakan Calhanoglu, Inter ('36)
Brentford 2 - 2 Mönchengladbach
0-1 Grant-Leon Ranos ('30)
1-1 Fabio Carvalho ('69)
2-1 Mikkel Damsgaard ('71)
2-2 Franck Honorat ('86)
Newcastle 2 - 2 Espanyol
0-1 Exposito ('17)
1-1 Matt Targett ('21)
1-1 Javi Puado, misnotað víti ('39)
2-1 Jacob Murphy ('77)
2-2 Kike Garcia ('89)
Augsburg 2 - 2 Pisa
0-1 Matteo Tramoni ('41, víti)
0-2 Matteo Tramoni ('68)
1-2 Steve Mounie ('72)
2-2 Steve Mounie ('83)
Rautt spjald: C. Zesiger, Augsburg ('84)
Olympiakos 2 - 1 Al-Taawon
Athugasemdir