Bayern hefur áhuga á Jackson - Isak ekki að fara að spila æfingaleiki - Höjlund á blaði Milan
   fös 08. ágúst 2025 20:14
Ívan Guðjón Baldursson
Lengjudeildin: Sextán ára með sigurmark fyrir Þór
Lengjudeildin
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Mynd: Þór
Fylkir 1 - 2 Þór
1-0 Eyþór Aron Wöhler ('13, víti)
1-1 Juan Guardia Hermida ('19)
1-2 Einar Freyr Halldórsson ('83)

Lestu um leikinn: Fylkir 1 -  2 Þór

Fylkir tók á móti Þór í fyrsta leik kvöldsins í Lengjudeild karla og fór viðureignin mjög líflega af stað. Eyþór Aron Wöhler tók forystuna fyrir heimamenn á þrettándu mínútu.

Eyþór skoraði úr vítaspyrnu sem var dæmd eftir mikla þvögu innan vítateigs í kjölfar hornspyrnu. Aron Birkir Stefánsson fór í rangt horn og gat því ekki varið spyrnuna.

Akureyringar vöknuðu við þetta og voru ekki nema um sex mínútur að jafna metin á ný. Aftur var skorað eftir hornspyrnu en í þetta skiptið datt boltinn fyrir fætur Juan Guardia Hermida sem skoraði eftir mikinn atgang í teignum.

Fylkismenn vildu fá dæmda vítaspyrnu skömmu síðar en Mischa Huru Kellerhals norski dómari leiksins flautaði ekki á eitthvað sem virtist mjög augljóst brot.

Staðan var þó jöfn eftir jafnan og skemmtilegan fyrri hálfleik. Leikurinn róaðist aðeins niður í síðari hálfleik en það ríkti enn jafnræði á vellinum. Það voru þó gestirnir frá Akureyri sem skoruðu sigurmarkið á lokakaflanum.

Aftur var skorað eftir hornspyrnu þar sem Fylkismönnum tókst ekki að koma boltanum nægilega langt frá marki. Boltinn barst til Einars Freys Halldórssonar, fæddur 2008, sem lét vaða með skoti utan vítateigs og skoraði, en það er hægt að setja spurningarmerki við Ólaf Kristófer Helgason á milli stanga heimamanna. Hann hefði líklegast átt að verja skotið.

Fylkir lagði allt í sóknarleikinn eftir þetta mark og fékk Pablo Aguilera Simon tækifæri til að jafna í uppbótartíma, en það tókst ekki. Hann náði flottu sporðdrekasparki en Aron Birkir gerði vel að verja svo lokatölur urðu 1-2.

Þetta eru gríðarlega dýrmæt stig fyrir Þór sem er að blanda sér í toppbaráttuna, á meðan Fylkir er óvænt í fallbaráttu.

Þór er í þriðja sæti sem stendur, með 30 stig úr 16 umferðum. Fylkir er aðeins með 11 stig.
Athugasemdir
banner