Bayern hefur áhuga á Jackson - Isak ekki að fara að spila æfingaleiki - Höjlund á blaði Milan
   fös 08. ágúst 2025 21:30
Ívan Guðjón Baldursson
Lengjudeildin: Breytingar á báðum endum töflunnar
Lengjudeildin
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Mynd: HK
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: EPA
Fjórum leikjum var að ljúka í Lengjudeild karla og litu afar áhugaverð úrslit dagsins ljós þar sem fallbaráttulið Fjölnis komst afar nálægt því að sigra toppbaráttulið ÍR á útivelli.

ÍR 3 - 3 Fjölnir
1-0 Guðjón Máni Magnússon ('7)
1-1 Kristófer Dagur Arnarsson ('14)
1-1 Bergvin Fannar Helgason ('29, misnotað víti)
2-1 Renato Punyed Dubon ('56)
2-2 Einar Örn Harðarson ('58)
2-3 Kristófer Dagur Arnarsson ('78)
3-3 Óliver Elís Hlynsson ('88, víti)

Lestu um leikinn: ÍR 3 - 3 Fjölnir

Slagurinn í Breiðholti var ótrúlega skemmtilegur þar sem bæði lið voru mætt til þess að sigra, en staðan var jöfn 1-1 í hálfleik. Heimamenn gengu svekktir til búningsklefa eftir frábæra markvörslu Sigurjóns Daða Harðarsonar sem varði vítaspyrnu frá Bergvin Fannari Helgasyni.

Renato Punyed tók forystuna á ný fyrir Breiðhyltinga í síðari hálfleik en Einar Örn Harðarson var fljótur að jafna leikinn aftur. Staðan var því orðin 2-2 þegar komið var inn á lokakaflann og tók Kristófer Dagur Arnarsson forystuna með sínu öðru marki í kvöld.

Fjölnismenn héldu að þeir hefðu gert sigurmarkið en svo var ekki, því ÍR fékk dæmda vítaspyrnu á lokamínútunum fyrir hendi innan vítateigs. Óliver Elís Hlynsson skoraði örugglega af punktinum þar sem Sigurjóni Daða tókst ekki að verja aðra vítaspyrnuna í leiknum.

ÍR-ingar skiptu um gír eftir jöfnunarmarkið og pressuðu stíft á gestina í uppbótartíma en tókst ekki að skora. Lokatölur 3-3.

Þetta þýðir að ÍR tapar toppsæti Lengjudeildarinnar til Njarðvíkur á meðan Fjölnir klifrar uppfyrir Fylki og upp úr fallsvæðinu. Fjölnismenn eru einu stigi frá fallsæti eftir sigurinn dýrmæta.

HK 3 - 0 Keflavík
0-0 Stefan Ljubicic ('2, misnotað víti)
1-0 Karl Ágúst Karlsson ('16)
2-0 Tumi Þorvarsson ('24)
3-0 Bart Kooistra ('70)

Lestu um leikinn: HK 3 - 0 Keflavík

HK tók þá á móti Keflavík og byrjuðu gestirnir betur, en Stefan Ljubicic brenndi af á vítapunktinum strax á annari mínútu. Hann skaut í stöngina eftir að hafa fiskað vítaspyrnuna sjálfur eftir svo lítið sem 15 sekúndur af leiknum.

Keflvíkingar voru sterkari fyrsta stundarfjórðunginn en heimamenn í liði HK svöruðu með marki sem kom gjörsamlega gegn gangi leiksins. Karl Ágúst Karlsson, fæddur 2007, gerði sér lítið fyrir og spólaði sig í gegnum varnarlínu Keflavíkur áður en hann þrumaði boltanum í þaknetið. Magnað einstaklingsframtak.

Heimamenn tvöfölduðu forystuna átta mínútum síðar með marki eftir skyndisókn, þar sem skot Tuma Þorvarssonar breytti um stefnu af varnarmanni áður en boltinn endaði í netinu.

Keflavík var áfram sterkara liðið en tókst ekki að minnka muninn og var mikill hiti í mönnum skömmu fyrir leikhlé. Staðan var þó 2-0 og ekki tókst gestunum að svara í síðari hálfleik þrátt fyrir góðar tilraunir. Þess í stað bættu heimamenn þriðja markinu við eftir slæm mistök hjá Sindra Kristni Ólafssyni markverði Keflvíkinga. Sindri reyndi að leika á Bart Kooistra, leikmann HK, sem vann boltann og skoraði í autt mark.

Keflavík átti eftir að skjóta í stöng en lokatölur urðu 3-0 þar sem færanýting HK-inga skilaði sigrinum. Verulega sárt fyrir Keflvíkinga sem þurfa að nýta færin sín betur.

Njarðvík 2 - 1 Selfoss
0-1 Raúl Tanque ('19, víti)
1-1 Dominik Radic ('28)
1-1 Dominik Radic ('51, misnotað víti)
2-1 Dominik Radic ('79)

Lestu um leikinn: Njarðvík 2 - 1 Selfoss

Njarðvíkingar eru komnir á topp deildarinnar eftir flottan endurkomusigur gegn fallbaráttuliði Selfoss. Raúl Tanque tók forystuna fyrir gestina með marki úr vítaspyrnu á 19. mínútu en Dominik Radic reyndist hetja leiksins.

Dominik jafnaði metin með marki eftir hornspyrnu aðeins skömmu eftir að liðsfélagi hans átti skalla í stöngina. Staðan var 1-1 eftir nokkuð jafnan fyrri hálfleik þar sem Njarðvík hélt mikið í boltann á meðan Selfoss beitti skyndisóknum.

Njarðvíkingar voru mun sterkari aðilinn í seinni hálfleik og fengu dæmda vítaspyrnu, en Dominik setti boltann framhjá. Hann átti eftir að reynast hetjan þar sem hann komst nokkrum sinnum nálægt því að skora áður en hann gerði loks það sem reyndist vera sigurmark leiksins eftir að heimamenn höfðu fengið urmul færa. Dominik skoraði mikið heppnismark þar sem hann fékk skottilraun frá Ali Basem Almosawe í sig og breytti boltinn um stefnu til að enda í netinu.

Jón Daði Böðvarsson kom inn af bekknum og tók þar með þátt í sínum fyrsta keppnisleik fyrir Selfoss síðan 2012. Honum tókst ekki að hafa áhrif á lokatölurnar.

Njarðvík klifrar upp í toppsætið með sigrinum þar sem þeir eiga 34 stig eftir 16 umferðir, einu stigi meira heldur en ÍR í öðru sæti. Selfoss er áfram í fallbaráttunni með 13 stig, tveimur stigum fyrir ofan fallsæti.

Grindavík 3 - 2 Leiknir R.
0-1 Kári Steinn Hlífarsson ('9)
0-2 Shkelzen Veseli ('13)
1-2 Adam Árni Róbertsson ('22)
2-2 Adam Árni Róbertsson ('34)
3-2 Adam Árni Róbertsson ('82)
Rautt spjald. Darren Sidoel, Grindavík ('86)

Lestu um leikinn: Grindavík 3 - 2 Leiknir R.

Að lokum skoraði Adam Árni Róbertsson frábæra þrennu í glæsilegum endurkomusigri Grindvíkinga á heimavelli gegn botnliði Leiknis R.

Gestirnir úr Breiðholti komust í tveggja marka forystu þegar Kári Steinn Hlífarsson og Shkelzen Veseli skoruðu snemma leiks, en Adam Árni svaraði með tvennu svo staðan var jöfn í leikhlé.

Shkelzen lagði fyrsta markið upp með góðri fyrirgjöf og tvöfaldaði sjálfur forystuna með glæsimarki frá miðju.

Adam Árni reyndi að svara en Ólafur Íshólm Ólafsson sá við honum með frábærri markvörslu. Síðar í hálfleiknum misreiknaði Ólafur fyrirgjöf Grindvíkinga og gaf þeim mark til að minnka muninn. Boltinn var á leiðinni inn þegar Adam Árni snerti hann til að tryggja mark. Hann var svo aftur á ferðinni til að setja boltann í netið eftir mikinn atgang í vítateignum í kjölfar hornspyrnu.

Staðan var 2-2 í hálfleik og var allt í járnum í síðari hálfleik. Bæði lið fengu þó tækifæri til að skora áður en Adam fullkomnaði þrennuna sína með góðu skallamarki.

Darren Sidoel fékk tvö gul spjöld með stuttu millibili á lokakaflanum en tíu Grindvíkingum tókst að halda út. Lokatölur 3-2 þökk sé Adam Árna.

Þetta er dýrmætur sigur fyrir Grindvíkinga sem eru núna komnir sex stigum fyrir ofan fallsæti. Leiknir situr áfram á botninum með 10 stig eftir 16 umferðir.
Athugasemdir
banner
banner