Stjórnendur enska úrvalsdeildarfélagsins Newcastle United eru staðráðnir í því að klófesta þýska varnarmanninn Malick Thiaw í sumar, þó að hann sé helst ekki til sölu.
AC Milan hafnaði fyrsta tilboði frá Newcastle í leikmanninn sem hljóðaði upp á rúmar 30 milljónir evra. Englendingarnir eru að undirbúa nýtt tilboð.
Max Allegri var ráðinn aftur til starfa hjá Milan í sumar og hefur miklar mætur á Thiaw. Hann vill alls ekki að leikmaðurinn verði seldur. Ítalskir fjölmiðlar segja að eina leiðin fyrir Milan til að selja sé ef mjög stórt tilboð berst í leikmanninn.
Thiaw, sem á þrjá A-landsleiki að baki fyrir Þýskaland, er með tvö ár eftir af samningi í Mílanó.
Þetta vekur sérstaklega mikla athygli vegna þess að Milan hafði samþykkt lægra kauptilboð í Thiaw frá samkeppnisaðila sínum í ítalska boltanum fyrr í sumar.
Milan og Como náðu samkomulagi sem hljóðaði upp á um það bil 25 milljónir evra, en varnarmaðurinn vildi ekki skipta yfir til Como.
Allegri tók svo við félaginu og var strax mjög hrifinn af Thiaw, sem gæti sinnt lykilhlutverki undir hans stjórn. Það hækkaði verðmiðann á leikmanninum.
FC Bayern og Bayer Leverkusen hafa þá verið að fylgjast með þessum öfluga varnarmanni, sem er einnig afmælisbarn dagsins.
Thiaw er 24 ára í dag og leikur sem miðvörður að upplagi en getur líka spilað sem hægri bakvörður og varnartengiliður.
Hjá Newcastle myndi Thiaw berjast við leikmenn á borð við Sven Botman og Fabian Schär um sæti í byrjunarliðinu.
06.08.2025 10:00
Milan hafnaði tilboði frá Newcastle í Thiaw
Athugasemdir