Sky Sports greinir frá því að senegalski framherjinn Nicolas Jackson vill yfirgefa Chelsea í sumar. Hann er búinn að segja stjórnendum að hann vilji ræða við önnur félög.
Það eru gríðarlega mörg félög áhugasöm um að kaupa Jackson sem er ekki sérlega ánægður með stóraukna samkeppni í fremstu víglínu hjá Chelsea.
Félagið keypti Joao Pedro og Liam Delap í sumar en David Datro Fofana og Christopher Nkunku eru einnig á samningi. Chelsea vill selja Fofana og er opið fyrir tilboðum í Jackson og Nkunku.
Jackson er 24 ára gamall og var ekki í hóp hjá Chelsea sem sigraði 2-0 gegn Bayer Leverkusen í æfingaleik fyrr í kvöld.
Félagið er sagt vera tilbúið til að halda Jackson innan sinna raða en er einnig reiðubúið til að selja hann fyrir rétta upphæð.
Jackson er með átta ár eftir af langtímasamningi sínum við Chelsea en félagið keypti hann fyrir 32 milljónir punda sumarið 2023. Talið er að Chelsea vilji um 60 milljónir til að selja hann.
Newcastle United, Aston Villa, FC Bayern, Tottenham og AC Milan eru meðal félaga sem hafa verið nefnd til sögunnar sem áhugasöm. Ekki er talið að Jackson hafi áhuga á að skipta til Sádi-Arabíu.
Jackson kom að 18 mörkum í 34 leikjum með Chelsea á síðustu leiktíð. Hann fékk lítið að spila er liðið vann HM félagsliða í sumar og missti byrjunarliðssætið til Joao Pedro.
Athugasemdir