Spænski miðjumaðurinn Rodri varð fyrir meiðslum á HM félagsliða fyrr í sumar og er tæpur næstu vikurnar.
Pep Guardiola staðfesti þetta á fréttamannafundi í dag fyrir æfingaleik Manchester City gegn Palermo annað kvöld. Það er eini æfingaleikur Man City fyrir nýtt keppnistímabil þar sem leikmenn eru nýkomnir úr sumarfríi eftir að hafa spilað á HM.
Rodri er ekki í hóp gegn Palermo þar sem Guardiola telur mikilvægt að hafa hann heilan heilsu á komandi leiktíð eftir að stórstjarnan missti af nánast öllu síðasta tímabili vegna krossbandsslita. Phil Foden, Josko Gvardiol og Claudio Echeverri eru heldur ekki í hópnum sem mætir Palermo.
„Rodri er að skána en hann lenti í slæmum meiðslum í síðasta leiknum á HM gegn Al-Hilal. Hann hefur verið að æfa betur síðustu daga og vonandi verður hann orðinn 100% klár í slaginn eftir landsleikjahléð í september. Það er mikilvægt fyrir okkur að fara varlega til að missa hann ekki í lengri meiðsli," sagði Guardiola.
„Hann finnur fyrir sársauka en nær vonandi að spila einhverjar mínútur í fyrstu leikjum tímabilsins. Við munum gera okkar besta til að hvíla hann í ágúst. Hann er alls ekki tilbúinn fyrir 90 mínútur."
Man City spilar við Wolves, Tottenham og Brighton í fyrstu umferðunum á nýju úrvalsdeildartímabili áður en fyrsta landseikjahléð ber að garði.
Athugasemdir