Bayern hefur áhuga á Jackson - Isak ekki að fara að spila æfingaleiki - Höjlund á blaði Milan
   fös 08. ágúst 2025 17:11
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
„Þetta er gjörsamlega fráleitt"
Viktor Jónsson.
Viktor Jónsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Gult spjald.
Gult spjald.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Viktor Jónsson, sóknarmaður ÍA, fékk að líta gula spjaldið í 2-2 jafntefli gegn Val síðasta þriðjudagskvöld. Hann ætti því að vera á leið í leikbann fyrir uppsöfnuð gul spjöld og missa af leik gegn FH á mánudaginn, en svo er ekki.

Hann missir þess í stað af þar næsta leik.

„Maður var að horfa á þessa útsendingu og Viktor Jónsson fær gula spjaldið. Í útsendingunni á Sýn stendur að hann missi af næsta leik. En reglurnar um gulu spjöldin á Íslandi eru þannig að hann er ekkert að fara að missa af næsta leik," sagði Elvar Geir Magnússon í Innkastinu.

„Fundur aganefndarinnar er á þriðjudögum og hann var haldinn fyrr um daginn (sem leikurinn á milli ÍA og Vals var). Aganefndin hittist ekki næst fyrr en á þriðjudag. Þannig að hann missir af þar næsta leik."

„Að þetta gerist ekki sjálfkrafa með gulu spjöldin, að þú missir af næsta leik eins og þetta ætti að vera, á árinu 2025... að einhver aganefnd sem hittist einu sinni í viku þurfi að samþykkja gulu spjöldin. Við höfum reynt aðeins að spyrja fólk af hverju það er ekki búið að breyta þessu og það er enginn með svör. Það er eins og það hafi aldrei verið ráðist í að gera þetta," sagði Elvar.

„Þetta er gjörsamlega fráleitt," sagði Valur Gunnarsson.

Viktor verður því með gegn FH en missir af leik gegn Víkingi, sem er ekki gott fyrir FH-inga sem eru að berjast við Skagamenn í fallbaráttunni.

„Þetta var svona því skýrslur voru bara að berast með bréfpósti í gamla daga og það hefur aldrei verið farið í það að breyta þessu," sagði Elvar. „Aganefnd á ekki að þurfa að sýsla í einhverjum gulum spjöldum, nema einhverjum undantekningartilfellum. Annars á þetta bara að vera sjálfkrafa inn í einhverju kerfi."

„Þú getur líka ekki áfrýjað gulu eða rauðu spjaldi. Það er ekki hægt að taka neitt til baka. Þetta er barns síns tíma," sagði Magnús Haukur Harðarson.
Innkastið - Þjálfarar að gera dýrkeypt mistök
Athugasemdir