
Það komu nokkrir Íslendingar við sögu í leikjum dagsins víða um Evrópu, þar sem Vigdís Lilja Kristjánsdóttir skoraði í sigri hjá Anderlecht.
Anderlecht sigraði PSV Eindhoven í æfingaleik og gerði Vigdís Lilja fyrsta mark leiksins en hún hefur farið vel af stað með nýju félagi. Vigdís, fædd 2005, er uppalin hjá Breiðabliki og hefur verið í lykilhlutverki með yngri landsliðunum þar sem hún á 11 mörk í 31 leik.
Í efstu deild sænska boltans kom hin 18 ára gamla Sigdís Eva Bárðardóttir inn af bekknum í sigri hjá Norrköping á útivelli gegn Brommapojkarna. Liðin mættust í fallbaráttunni og er Norrköping núna tveimur stigum fyrir ofan fallsvæðið þökk sé þessum dýrmæta sigri.
Ísabella Sara Tryggvadóttir fékk að spreyta sig síðustu mínúturnar í afar svekkjandi tapleik Rosengård á heimavelli gegn Malmö. Ísabellu var skipt inn á 85. mínútu og gerði Malmö sigurmarkið beint í kjölfarið.
Rosengård er óvænt um miðja deild, aðeins fjórum stigum fyrir ofan fallsvæðið. Til samanburðar er Malmö í titilbaráttunni, með 29 stig eftir 13 umferðir.
Að lokum var María Catharína Ólafsdóttir Grós í byrjunarliði Linköping sem steinlá á heimavelli gegn Växjö. Liðin mættust í fallbaráttunni þar sem Linköping er á góðri leið með að falla verandi með 5 stig eftir 13 umferðir.
Bryndís Arna Níelsdóttir var ekki í leikmannahópi Vaxjö. Liðið er einu stigi fyrir ofan fallsvæðið eftir þægilegan fjögurra marka sigur.
PSV Eindhoven 1 - 3 Anderlecht
0-1 Vigdís Lilja Kristjánsdóttir ('6)
1-1 L. Jacobs ('8)
1-2 T. De Caigny ('14)
1-3 L. Vanzeir ('15)
Brommapojkarna 1 - 2 Norrkoping
Linkoping 0 - 4 Vaxjo
Rosengard 0 - 1 Malmo
Athugasemdir