Luke Edwards hjá Telegraph segist hafa heimildir fyrir því að Newcastle hafi tjáð sænska framherjanum Alexander Isak að hann verði ekki seldur í þessum glugga.
Liverpool hefur verið á höttunum eftir Isak síðustu vikur og var fyrsta tilboði félagsins upp á 110 milljónir punda hafnað fyrir tveimur vikum síðan.
Blaðamennirnir Fabrizio Romano, Craig Hope og Keith Downie hafa allir sagt að Newcastle muni líklega gefa eftir á endanum, takist félaginu að sækja sóknarmann í stað Isak.
Sú leit hefur gengið illa. Liverpool hafði betur í baráttunni um Hugo Ekitike og þá fór Benjamin Sesko til Manchester United, en félagið er búið að uppfæra óskalista sinn og heldur áfram að leita.
Edwards, sem er sagður fá upplýsingar beint frá stjórn Newcastle, segir að Isak sé brjálaður eftir að honum var tjáð að hann yrði ekki seldur í sumar.
Isak æfir einn og hefur Eddie Howe, stjóri liðsins, sagt að hann verði líklegast ekki með í opnunarumferð ensku úrvalsdeildarinnar næstu helgi.
Telegraph er talinn nokkuð áreiðanlegur miðill, en Edwards, sem er sérstakur fréttaritari blaðsins í norðurhluta Englands, hefur ekki þótt sérstaklega áreiðanlegur í allt sumar og farið rangt með mál í nokkur skipti. Nú síðast í kringum félagaskipti James Trafford.
Hann sagði Newcastle hafa skráð sig aftur í baráttuna um Trafford, en þurfti að draga það til baka sjö mínútum síðar eftir að greint var frá samkomulagi Man City við leikmanninn. Stuðningsmenn Liverpool geta því tekið þessum fréttum Edwards með fyrirvara.
Takist Newcastle að kaupa toppframherja mun Liverpool leggja fram annað tilboð í Isak og eru taldar yfirgnæfandi líkur á að Newcastle verði tilbúið að setjast við samningaborðið, enda virðist samband Isak við félagið og stuðningsmenn þess á enda komið.
Athugasemdir