mán 10. febrúar 2020 21:15
Brynjar Ingi Erluson
Pele fer ekki út úr húsi - „Hann skammast sín"
Pele er 79 ára gamall
Pele er 79 ára gamall
Mynd: Getty Images
Brasilíska goðsögnin Pele er að ganga í gegnum þunglyndi og fer ekki út úr húsi en sonur hans segir frá þessu í viðtali við TV Globo í Brasilíu.

Pele, sem er 79 ára gamall, átti glæstan knattspyrnuferil og er talinn einn besti knattspyrnumaður allra tíma en hann vann HM þrisvar með Brasilíu og skoraði þá 1281 mark í 1363 leikjum. Þar af 77 mörk í 91 landsleik.

Hann fór í aðgerð á blöðruhálskirti árið 2015 eftir að hafa farið tvívegis á spítala á sex mánuðum og þá hefur hann verið í vandræðum með mjöðmina en hann getur ekki gengið án þess að fá stuðning.

Pele hefur þurft að koma fram á viðburðum í hjólastól en nú fer hann ekki út úr húsi.

„Hann lokar sig af. Ég meina ímyndaðu þér, maðurinn er kóngur og var alltaf svo mögnuð fígúra á sínum tíma og nú getur hann ekki gengið almenninlega," sagði Edinho, sonur hans.

„Hann skammast sín og þess vegna vill hann ekki fara út eða láta sjá sig. Hann vill ekki gera neitt sem tengist því að fara út úr húsi."

„Hann er mjög viðkvæmur. Hann fór í mjaðmaskipti og hefur ekki gengið vel í endurhæfingunni og það hefur haft áhrif á hreyfigetu hans. Það er ástæðan fyrir því hann er að glíma við þetta þunglyndi,"
sagði hann í lokin.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner