Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   fös 10. mars 2023 15:07
Elvar Geir Magnússon
Conte ræddi um viðtalið við Richarlison og sína framtíð
Richarlison í leik með Tottenham.
Richarlison í leik með Tottenham.
Mynd: EPA
Antonio Conte stjóri Tottenham segir að viðtalið við Richarlison hafi verið slitið úr samhengi. Fjallað var um að brasilíski sóknarmaðurinn hefði verið að gagnrýna Conte en ítalski stjórinn horfir öðruvísi á málið.

„Ég horfði á viðtalið við Richarlison og hann gagnrýndi mig ekki. Hann sagði þetta vera skítatímabil fyrir sig og það er rétt hjá honum, hann hefur verið mjög óheppinn með meiðsli," segir Conte.

„Hann byrjaði vel með okkur, svo meiddist hann og fór á HM þar sem hann varð fyrir öðrum meiðslum. Hann var mjög hreinskilinn þegar hann sagði þetta vont tímabil fyrir sig. Hann er ekki kominn með mark í deildinni og skoraði bara tvö í Meistaradeildinni."

Conte segir að Richarlison hafi gert mistök með því að tala um sjálfan sig en ekki liðið í heild. Hann segir að leikmaðurinn sjálfur geri sér grein fyrir þeim mistökum.

„Ef við viljum byggja eitthvað sérstakt og vera að berjast um titla verðum við alltaf að tala um okkur sem heild. Það þarf að tala um liðið. Richarlison skilur það og baðst afsökunar."

Tottenham féll úr leik í Meistaradeildinni í vikunni en liðið er í baráttu um að enda í topp fjórum í ensku úrvalsdeildinni. Liðið mætir Nottingham Forest á morgun.

Framtíð Conte hefur verið í umræðunni en samningur hans rennur út í sumar. Allt virðist stefna í þá átt að leiðir munu skilja í sumar. Eða hvað?

„Við þurfum að klára tímabilið og svo sjáum við hvað gerist. Félagið hefur fengið að kynnast mér og öfugt, félagið veit hvað ég er að hugsa. Ég er tilbúinn að deyja fyrir þetta félag þar til tímabilinu lýkur," segir Conte.
Athugasemdir
banner
banner
banner