fös 10. mars 2023 14:21
Elvar Geir Magnússon
Fulltrúar Elliott mættu á Old Trafford
Mynd: Getty Images
Bandaríska fjárfestingafyrirtækið Elliott hefur komist á annað stig í ferlinu í kringum mögulega sölu á Manchester United. Fulltrúar Elliott voru á Old Trafford í gær og horfðu á 4-1 sigurinn gegn Real Betis.

Fyrirtækið ætlar ekki að eignast félagið en vill hjálpa til við fjármögnun, annað hvort með verðandi eigendum eða Glazer fjölskyldunni ef hún mun halda áfram sem eigandi.

Einu tvö opinberu kauptilboðin í Manchester United hafa komið frá breska auðkýfingnum Sir Jim Ratcliffe og katarska viðskiptamanninum Sjeik Jassim bin Hamad Al Thani.

Það að Elliott sé enn inn í myndinni er talið gefa vísbendingar um að Glazer haldi því opnu að vera áfram hjá félaginu. Peningarnir frá fyrirtækinu gætu verið notaðir til að endurnýja Old Trafford og Carrington æfingasvæðið.

Háttsettir aðilar innan Elliott hittu fulltrúa Manchester United í gær, fyrir Evrópudeildarleikinn. Fyrirtækið átti AC Milan áður en ítalska félagið var selt til RedBird Capital sumarið 2022.

Fulltrúar Ratcliffe og Jassim munu mæta í næstu viku á kynningar frá Manchester United. Þegar kynningunum er lokið mun Raine Group, sem sér um söluna, líklega fara fram á endurskoðuð tilboð.

Upphaflega var markmiðið að vera búið að selja félagið í lok þessa mánaðar en mjög ólíklegt er að það náist.
Athugasemdir
banner
banner
banner