Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   mán 10. ágúst 2020 21:48
Brynjar Ingi Erluson
Evrópudeildin: Man Utd áfram eftir mikla yfirburði
Marcus Rashford lætur vaða á markið
Marcus Rashford lætur vaða á markið
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Manchester Utd 1 - 0 FC Kobenhavn
1-0 Bruno Fernandes ('95 , víti)

Enska úrvalsdeildarfélagið Manchester United er komið í undanúrslit Evrópudeildarinnar eftir 1-0 sigur á FCK frá Danmörku en enska liðið var með algera yfirburði í leiknum og reyndist vítaspyrna Bruno Fernandes í framlengingu úrslitavaldurinn. Leikurinn fór fram í Köln í Þýskalandi.

Það var mikill kraftur í liði FCK í byrjun leiks og reyndist Mohamed Daramy hættulegur í teignum. Man Utd tók hins vegar við sér og virtist Mason Greenwood koma United yfir undir lok fyrri hálfleiks en markið var dæmt af vegna rangstöðu.

United kom boltanum aftur í netið á 57. mínútu en Greenwood átti skot sem fór í stöngina og þaðan til Marcus Rashford og í netið en Rashford var rangstæður.

Bruno Fernandes átti skot í stöng nokkrum mínútum síðar en Karl-Johan Johnsson, markvörður FCK, var að eiga besta leik lífs síns og hélt FCK inn í leiknum.

Hann varði meistaralega frá Anthony Martial undir lok leiksins og kom sínum mönnum áfram í framlengingu. Í framlengingunni tókst United hins vegar að brjóta ísinn.

Brotið var á Martial innan teigs og fór Fernandes á punktinn og skoraði örugglega. Þetta var 21. vítaspyrnan sem United fær á tímabilinu en ekkert lið í fimm stærstu deildunum í Evrópu hefur fengið fleiri víti en United.

Johnsson hélt áfram að verja vel, frá Martial, Mata og síðan Rashford. Markvörðurinn hélt FCK inn í leiknum. Hann varði svo í tvígang frá Fernandes og Mata undir lok fyrri hálfleiks framlengingarinnar. Hreint út sagt mögnuð frammistaða hjá sænska markverðinum.

Fátt markvert gerðist í seinni hluta framlengingar og lokatölur því 1-0 fyrir United sem er komið í undanúrslit Evrópudeildarinnar.

Þetta var erfið fæðing en sanngjörn úrslit. Man Utd mætir Wolves eða Sevilla í undanúrslitunum á meðan Inter mætir Basel eða Shakhtar.
Athugasemdir
banner
banner
banner