Mikel Arteta þjálfari Arsenal segir að félagið sé ennþá að leita sér að nýjum leikmönnum á markaðinum í ágúst.
Arsenal er búið að krækja í Viktor Gyökeres, Martín Zubimendi, Noni Madueke, Christian Nörgaard, Kepa Arrizabalaga og Cristhian Mosquera á jákvæðu sumri fyrir félagið en útlit er fyrir að liðinu vanti í það minnsta einn kantmann til viðbótar.
Þar hafa Eberechi Eze hjá Crystal Palace og Rodrygo hjá Real Madrid helst verið nefndir til sögunnar.
„Við verðum að bíða og sjá hvað gerist á næstu vikum. Við erum virkir í okkar leit að nýjum leikmanni, við erum ekki búnir í sumar. Það eru nokkrir leikmenn sem gætu líka þurft að fara frá okkur," sagði Arteta eftir sannfærandi 3-0 sigur á Athletic Bilbao í árlegum 'Emirates Cup' æfingaleik í gær.
Kieran Tierney, Jorginho, Raheem Sterling og Thomas Partey eru meðal leikmanna sem yfirgáfu Arsenal í sumar.
Athugasemdir