Isak fær ekki að fara - Liverpool leiðir kappið um Guéhi - Chelsea setur meira púður í Garnacho - Calvert-Lewin rak umboðsteymið
   sun 10. ágúst 2025 15:58
Ívan Guðjón Baldursson
Besta deildin: Vestri stal stigunum í uppbótartíma
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Vestri
Vestri 3 - 2 Fram
0-1 Vuk Oskar Dimitrijevic ('15)
1-1 Vladimir Tufegdzic ('20)
1-2 Kennie Chopart ('62)
2-2 Ágúst Eðvald Hlynsson ('65)
3-2 Gunnar Jónas Hauksson ('91)

Lestu um leikinn: Vestri 3 -  2 Fram

Fyrsti leikur dagsins í Bestu deild karla fór fram á Ísafirði þar sem Vestri tók á móti Fram og náðu gestirnir forystunni strax á fimmtándu mínútu. Vuk Oskar Dimitrijevic gerði vel að klára gott færi með marki eftir stoðsendingu frá Haraldi Einari Ásgrímssyni.

Það tók heimamenn þó aðeins fimm mínútur að jafna metin eftir mikinn atgang í vítateig Fram. Cafu Phete átti skalla í slá og fylgdi sjálfur eftir með skoti í varnarmann svo boltinn hrökk að lokum til Vladimir Tufegdzic, sem skoraði af stuttu færi.

Ísfirðingar björguðu á marklínu eftir að hafa gert jöfnunarmarkið og var staðan 1-1 í leikhlé. Síðari hálfleikurinn fór rólega af stað en Framarar byrjuðu betur og áttu nokkrar góðar tilraunir áður en Kennie Chopart setti boltann í netið með nokkuð óheppilegu heppnismarki. Misheppnuð hreinsun Gustav Kjeldsen eftir hornspyrnu virtist fara af pungi Kennie og í netið.

Framarar voru þá komnir með forystuna í annað sinn í dag og lifnaði heldur betur við leiknum. Liðin skiptust á að fá dauðafæri á næstu mínútum en það var Ágúst Eðvald Hlynsson sem náði að jafna metin á ný. Guðmundur Arnar Svavarsson slapp innfyrir vörnina og renndi boltanum á Ágúst sem potaði inn af stuttu færi.

Staðan var þá orðin 2-2 eftir ótrúlegan þriggja mínútna kafla þar sem skoruð voru tvö mörk og tvö dauðafæri fóru forgörðum.

Gestirnir úr Úlfarsárdal fengu betri færi á lokakaflanum en það telur ekki. Heimamenn náðu að setja boltann í netið í uppbótartíma og stálu þannig sigrinum. Fatai Gbadamosi gerði frábærlega að vinna boltann og keyra upp kantinn til að búa markið til fyrir Gunnar Jónas Hauksson.

Lokatölur 3-2 eftir skemmtilegan fótboltaleik. Þetta eru afar dýrmæt stig fyrir Vestra sem klifrar uppfyrir Fram og í fjórða sæti deildarinnar. Vestri er þar með 26 stig eftir 18 umferðir, einu stigi meira en Fram.
Athugasemdir
banner
banner
banner