Isak fær ekki að fara - Liverpool leiðir kappið um Guéhi - Chelsea setur meira púður í Garnacho - Calvert-Lewin rak umboðsteymið
   sun 10. ágúst 2025 12:40
Ívan Guðjón Baldursson
Diakité er mættur til Englands
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Sky Sports greinir frá því að Bournemouth sé búið að ná samkomulagi við franska félagið Lille um kaup á miðverðinum Bafodé Diakité.

Bournemouth borgar 35 milljónir evra til að kaupa Diakité með 5 milljónir til viðbótar í árangurstengdar aukagreiðslur.

Úrvalsdeildarfélagið sárþarfnast liðsstyrks í hjarta varnarinnar eftir sölu á Dean Huijsen til Real Madrid og þá er Illya Zabarnyi á leið til PSG.

Diakité er 24 ára gamall og mun berjast við Chris Mepham og Marcos Senesi um byrjunarliðssæti í varnarlínunni. Bournemouth er í leit að einum miðverði til viðbótar og hefur meðal annars verið orðað við Loïc Bade og Mario Gila.

Þó gæti Andoni Iraola þjálfari kosið að nýta sér efnilega uppalda leikmenn félagsins til að berjast um byrjunarliðssæti, í stað þess að eyða peningum í nýja leikmenn þó að fjármunirnir séu vissulega til staðar eftir sölur sumarsins.

Matai Akinmboni er bráðefnilegur og gæti reynt að taka stökkið í aðalliðið en hann er með 3 landsleiki að baki fyrir U19 landslið Bandaríkjanna. Hann er 18 ára gamall.

James Hill gæti einnig tekið stökkið en hann er 23 ára og með einn leik að baki fyrir U21 landslið Englands, eftir að hafa tekið líka þátt í nokkrum leikjum með U20 liðinu.

Diakité er staddur í Bretlandi þessa stundina þar sem hann gengst undir læknisskoðun og skrifar undir samning áður en skiptin verða formlega tilkynnt.

Leikmaðurinn yrði sá næstdýrasti í sögu Bournemouth, ekki jafn dýr og brasilíski framherjinn Evanilson sem var keyptur í fyrrasumar.

Diakité þykir sérstaklega góður kostur því hann getur leyst allar stöðurnar í varnarlínunni vel af hólmi. Hann er miðvörður að upplagi og getur líka spilað báðar bakvarðarstöðurnar.

Þetta eru slæmar fréttir fyrir Hákon Arnar Haraldsson og restina af liðsfélögunum hans hjá Lille.

   08.08.2025 15:00
Opna aftur viðræður um liðsfélaga Hákonar

Athugasemdir
banner