Liverpool er að spila úrslitaleik við Crystal Palace um Samfélagsskjöldinn þessa stundina og tóku Englandsmeistararnir forystuna snemma leiks þegar Hugo Ekitike kom boltanum í netið.
Ekitike skoraði laglegt mark eftir gott samspil við Florian Wirtz, en Liverpool keypti báða þessa leikmenn úr þýsku deildinni í sumar fyrir væna fúlgu fjárs.
Sjáðu opnunarmarkið
Þeir tengdu vel saman til að taka forystuna en gleði Liverpool var skammlíf því Crystal Palace jafnaði metin þrettán mínútum síðar með marki úr vítaspyrnu. Jean-Philippe Mateta skoraði af miklu öryggi af vítapunktinum eftir að Virgil van Dijk braut klaufalega á Ismaila Sarr.
Sjáðu jöfnunarmarkið
Jeremie Frimpong var þó fljótur að svara og tók forystuna á ný með heppilegri vippu skömmu síðar. Frimpong spretti upp hægri kantinn og virtist ætla að gefa boltann fyrir, en þess í stað vippaði hann yfir Dean Henderson markvörð og í fjærhornið. Hann er líka að spila sinn fyrsta keppnisleik í sumar eftir að hafa verið keyptur úr þýsku deildinni.
Sjáðu vippumarkið
Staðan er 2-1 fyrir Liverpool eftir 23 mínútur af gífurlega skemmtilegum úrslitaleik.
Athugasemdir