Arsenal og Chelsea vilja Isak - Þrír orðaðir við Liverpool - Potter orðaður við Wolves og West Ham
   sun 10. nóvember 2024 07:30
Brynjar Ingi Erluson
Guardiola skammaði Van Hecke - „Hann getur ekki fleygt sér í grasið“
Jan Paul Van Hecke
Jan Paul Van Hecke
Mynd: EPA
Pep Guardiola, stjóri Manchester City, fór yfir leikinn með Jan Paul Van Hecke, varnarmanni Brighton, eftir leik liðanna í gær en hann var ósáttur með leikþáttinn sem hann bauð upp á undir lokin.

Van Hecke fékk það erfiða hlutverk að eiga við norska sóknarmanninn Erling Braut Haaland í leiknum og gerði hann nokkuð vel stærstan hluta hans.

Haaland skoraði vissulega eina mark Man City í fyrri hálfleiknum, en frammistaða hollenska miðvarðarins var frábær stærstan hluta leiksins.

Turnarnir tveir börðust af alefli allan leikinn en undir lokin lentu þeir tveir í hörkuglímu sem endaði með því að Van Hecke lagðist í grasið og hélt um andlit sitt, eitthvað sem Guardiola var ekki ánægður með.

Spánverjinn fór upp að Van Hecke eftir leikinn og skammaði hann fyrir framan myndavélarnar. Þeir virtust ekki alveg sammála, en Guardiola hefur lagt það í vana sinn að að tala við leikmenn andstæðinganna eftir leiki, hvort sem það er að gefa ráð, hrósa eða jú skamma.

„Ég sagði við hann að hann væri sterkur eins og Erling. Þegar Erling stendur upp þá verður þú að gera hið sama. Þú getur ekki fleygt þér í grasið. Þú verður að halda áfram að vera sterkur er það ekki? Þú ert að toga í hann allan leikinn og síðan eftir bardagann liggur þú í grasinu. Hann spilaði samt mjög góðan leik og vil ég óska Brighton til hamingju,“ sagði Guardiola.

Man City tapaði leiknum 2-1 en þetta var fjórða tap liðsins í röð. Englandsmeistararnir eru nú fimm stigum frá toppnum eftir ellefu umferðir.


Athugasemdir
banner
banner
banner