mán 11. janúar 2021 18:03
Brynjar Ingi Erluson
Ætlar að fá Benzema aftur í franska landsliðið
Karim Benzema
Karim Benzema
Mynd: Getty Images
Forsetakosningar hjá franska knattspyrnusambandinu eru á næsta leiti og eru frambjóðendur þegar farnir að lofa upp í ermina á sér en Michel Moulin, einn af frambjóðendunum, ætlar að kalla Karim Benzema aftur inn í franska landsliðið ef hann vinnur.

Noel Le Graet er forseti knattspyrnusambandsins og hefur gegnt því hlutverki frá 2011. Áður var hann yfir frönsku deildinni og varaforseti sambandsins en forsetakosningar eru nú framundan.

Karim Benzema, framherji Real Madrid, hefur verið einn besti framherji heims síðasta áratuginn en hefur þó ekki spilað fyrir Frakkland síðan 2015.

Le Graet hefur ítrekað það við fjölmiðla að Benzema spili ekki fyrir Frakkland á meðan hann er við völd. Ástæðan er sú að Benzema átti þátt í að múta Mathieu Valbuena, liðsfélaga hans í landsliðinu.

Réttarhöld yfir Benzema fara fram á næstu mánuðum vegna málsins en Moulin ætlar þó að reyna að fá Benzema aftur í landsliðið ef hann vinnur forsetakosningarnar hjá franska sambandinu.

„Didier Deschamps er starfsmaður franska knattspyrnusambandsins. Karim Benzema er frábær framherji og meðhöndlunin á honum hefur verið ósanngjörn. Ef ég verð yfir Deschamps þá mun ég segja honum að spila Benzema og hann verður að spila," sagði Moulin í viðtali Le Figaro.

Benzema hefur skorað 27 mörk í 81 landsleik fyrir Frakkland og þá hefur hann skorað 342 mörk í 702 leikjum fyrir Lyon og Real Madrid.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner