Hver tekur við af Klopp? - Dani Olmo orðaður við Man Utd - Greenwood í skiptum fyrir Gleison Bremer
   lau 11. mars 2023 19:28
Brynjar Ingi Erluson
England: Vítaspyrnumark Haaland dugði á Selhurst Park
Erling Braut Haaland fagnar sigurmarkinu
Erling Braut Haaland fagnar sigurmarkinu
Mynd: Getty Images
Crystal Palace 0 - 1 Manchester City
0-1 Erling Haland ('78 , víti)

Manchester City er tveimur stigum á eftir toppliði Arsenal eftir að liðið vann 1-0 sigur á Crystal Palace á Selhurst Park í 27. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í dag.

Eins og við var að búast voru gestirnir með stjórn á leiknum. Man City átti átta skot í fyrri hálfleiknum en þó ekki eitt á markið.

Palace spilaði skipulagðan varnarleik en náði ekki að nýta sér hraðar skyndisóknir og því markalaust í hálfleik.

Phil Foden fékk ágætis færi til að skora er Man City fékk aukaspyrnu snemma í síðari hálfleik en Vicente Guaita sá við honum.

Haaland var ekki mikið í boltanum í leiknum og hafði snert hann örfáum sinnum áður en Man City fékk vítaspyrnu á 77. mínútu leiksins.

Jack Grealish tók hornspyrnu stutt inn í teiginn á Ilkay Gündogan. Michael Olise, leikmaður Palace, fór í hann af fullum krafti og aðeins of harkalega því hann braut á þýska miðjumanninum og ekkert annað í stöðunni en að dæma víti.

Haaland fór á punktinn og skoraði. 28. mark hans í deildinni á þessu tímabili.

Þetta reyndist sigurmark leiksins og lokatölur því 1-0 Man City í vil.

Þolinmæðisvinna hjá gestunum sem eru nú með 61 stig í öðru sæti, tveimur stigum á eftir Arsenal sem á leik til góða. Palace er á meðan í 12. sæti með 27 stig.
Athugasemdir
banner
banner
banner