lau 11. mars 2023 08:30
Brynjar Ingi Erluson
MOTD fer í loftið án lýsenda og sérfræðinga - Leikmenn vilja sýna stuðning
Gary Lineker
Gary Lineker
Mynd: Getty Images
Það verður enginn í settinu í sjónvarpsþættinum Match of the Day á BBC í kvöld og þá hafa lýsendurnir ákveðið að sleppa því að vera með í þættinum. Breska ríkissjónvarpið hefur staðfest að þátturinn muni fara í loftið en sýnt verði úr leikjum dagsins með umhverfishljóðum en engum lýsendum né sérfræðingum.

Gary Lineker, þáttastjórnandi MOTD, gagnrýndi ríkisstjórnina á Twitter eftir að ný stefna hennar, sem varðar flóttafólk, var opinberuð en hann líkti henni við stefnu Þjóðverja í kringum síðari heimsstyrjöldina.

Stefnan er sögð full af kynþáttafordómum í garð flóttafólks en BBC ákvað að Lineker myndi stíga til hliðar tímabundið þar sem hann hefði brotið hlutleysisreglur.

Lineker neitar að biðjast afsökunar á ummælum sínum en hann fær stuðning frá samstarfsfólki sínu. Spekingarnir sem sitja með honum í þættinum ætla ekki að vera í þættinum í dag og nú hafa þeir lýsendur sem lýsa leikjunum ákveðið að sniðganga þáttinn sömuleiðis.

Ian Wright, Alan Shearer, Micah Richards og Jermaine Jenas eru meðal sérfræðinga sem hafa neitað að vera með í þættinum til stuðnings Lineker.

Leikmenn ensku úrvalsdeildarinnar eru þá alvarlega að íhuga það að sleppa því að mæta í viðtöl við BBC til að sýna Lineker og samstarfsfólki hans stuðning. Leikmannasamtökin munu styðja við leikmenn ef þeir ákveða að sleppa því að sinna skyldum sínum við útsendingu leikja.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner