mið 11. maí 2022 18:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Alexandra: Kom frá honum að ég þyrfti að spila meira
Alexandra Jóhannsdóttir.
Alexandra Jóhannsdóttir.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Alexandra Jóhannsdóttir er komin heim og mun leika með Breiðabliki þangað til Evrópumótið hefst.

Alexandra, sem er 22 ára miðjumaður, fór frá Breiðabliki til Eintracht Frankfurt fyrir um einu og hálfu ári síðan. Hún hefur ekki verið í stóru hlutverki hjá Frankfurt en hjá Blikum verður hún algjör lykilmaður.

„Ég er búin að spá í þessu í smá tíma. Miðað við mínúturnar sem ég er búin að vera að fá hjá Frankfurt, þá fannst mér þetta besta lausnin," sagði Alexandra í samtali við RÚV.

„Þetta er búið að vera ótrúlega krefjandi og erfitt, en ótrúlega gott líka. Ég er sátt, en þetta er búið að vera ótrúlega krefjandi."

Það er EM í sumar og þar ætlar Alexandra að vera í hópnum. Hún segist hafa rætt við Þorstein Halldórsson, landsliðsþjálfara, fyrir þessi skipti.

„Þetta var svo sem ekkert gert í samráði við Steina, en það kom frá honum að ég þyrfti að spila meira. Þá fannst mér þetta besta lausnin. Ég þarf líka að sanna mig hjá Breiðabliki."

Hún gæti spilað sinn fyrsta leik fyrir Blika í sumar er þær mæta KR á föstudag. „Ég er ótrúlega spennt fyrir þessu."
Athugasemdir
banner
banner