fim 11. júlí 2019 18:09
Brynjar Ingi Erluson
Aron Jóhannsson til Hammarby (Staðfest)
Aron Jóhannsson er mættur til Hammarby
Aron Jóhannsson er mættur til Hammarby
Mynd: Getty Images
Sænska úrvalsdeildarfélagið Hammarby staðfesti í dag komu Arons Jóhannssonar til félagsins. Han kemur á frjálsri sölu frá Werder Bremen og gerir þriggja ára samning.

Aron er fæddur árið 1990 og uppalinn í Fjölni en gekk til liðs við AGF árið 2010.

Hann gerði magnaða hluti hjá AGF sem varð til þess að hann var keyptur til hollenska félagsins AZ Alkmaar. Hann skoraði þar 39 mörk í 81 leik áður en hann fór til Þýskalands að spila fyrir Werder Bremen.

Meiðsli settu strik í reikninginn hjá Bremen en samningur hans rann út um mánaðarmótin og var honum því frjálst að semja við önnur félög.

Hann gerði þriggja ára samning við Hammarby í dag en hann leysir Viðar Örn Kjartansson af hólmi sem er farinn aftur til Rostov. Viðar Örn var á láni frá Rostov hjá Hammarby en óvíst er hvað tekur við hjá honum.

„Ég er í skýjunum með að vera komin til Hammarby og vera partur af klúbb sem er með svona marga stuðningsmenn. Nú þarf ég að leggja hart að mér og koma mér í leikform sem allra fyrst til að vera með og hjálpa lið'sfélögum mínum á vellinum og jafnvel skora mörk," sagði Aron við heimasíðu Hammarby.

Jesper Jansson, yfirmaður knattspyrnumála hjá Hammarby, er ánægður með að hafa landað íslenska framherjanum.

„Aron er gæðaleikmaður sem var seldur fyrir háa upphæð er hann fór frá AZ Alkmaar til Werder Bremen á sínum tíma. Hann hefur vissulega átt í erfiðleikum með meiðsli en er núna búinn að jafna sig. Það er smá í að hann verði kominn í sitt besta form en hann er í sama flokki á Jiloan Hamad, Muamer Tankovic og Alexander Kacaniklic er þeir komu hingað. Þetta eru allt ólíkir leikmenn sem þurfa á því að halda að koma ferlinum aftur í gang og þar kemur Hammarby inn sem spennandi tækifæri fyrir þessa leikmenn. Við erum í skýjunum með að hafa fengið Aron," sagði Jansson við heimasíðuna.



Athugasemdir
banner
banner
banner