
Grindavík/Njarðvík tryggði sér sæti í Bestu-deild kvenna í síðustu viku. Liðið var á sínu fyrsta tímabili eftir sameiningu. Gylfi Tryggvason, þjálfari liðsins, segir við Fótbolti.net að tímabilið hafi verið magnað í alla staði og er að vonum stoltur með árangur stelpnanna.
„Síðustu dagar hafa verið ólýsanlegir. Fjöldi fólks hefur lagt sitt á vogarskálarnar til að gera þetta mögulegt og við náðum að fagna þessu saman vel og innilega. Við erum virkilega stolt og ánægð með tímabilið. Að sama skapi erum við strax byrjuð að huga að næsta tímabili, það er mikill hugur í fólkinu í félaginu og við ætlum að halda áfram að gera þetta af miklum krafti.“
Liðið eltist við HK í baráttu um 2. sætið meirihluta tímabils.
„Eftir að HK tapaði gegn ÍBV í 16. umferð var þetta komið í okkar hendur aftur. Tveir leikir eftir og við þurftum að vinna þá báða til að fara upp. Þá tókum við gott spjall þar sem við ræddum það að við vildum frekar þora að spila okkar fótbolta í þessum tveimur leikjum og ekki fara upp heldur en að fara frá okkar gildum í þeirri von að sækja einhver úrslit, og vonandi fara upp.“
Hann segir ótrúlegt að rifja upp og sjá hversu langt liðið sé komið miðað við hvernig tímabilið hófst.
„Við byrjuðum veturinn langt á eftir öllum öðrum liðum. Á síðustu æfingu fyrir jól voru fjórir leikmenn mættir og ég var einn í þjálfarateyminu. Það var mikill stígandi í öllu í kringum félagið. Frammistaðan fylgdi með, leikmenn skildu betur hvernig fótbolta við vildum spila og mynduðu betri tengingar við hver annan inn á vellinum. Eftir pásuna í júlí spiluðum við frábæran fótbolta sem skilaði okkur í úrslitaleik gegn HK.“
Grindavík/Njarðvík vann úrslitaleikinn gegn HK 4-1.
„Við vorum því á góðum stað þegar við förum inn í þann leik. Sjálfstraustið var mikið og stelpurnar voru alveg með þetta frá fyrstu sekúndu. Þær voru einfaldlega í þannig gír að það var ekkert að fara að stöðva þær. Mætingin var frábær og við höfum aldrei fengið jafn mikinn stuðning og í þessum leik, sem skipti sköpum. Ég þekki þetta HK-lið betur en flestir og þær voru með gott lið í ár en ég held að allir sem sáu leikinn séu sammála um að við höfum verið töluvert sterkari, og þá er ég alls ekki að taka neitt af HK. Við vorum bara hrikalega öflugar.“
Gylfi segir liðið þó ekki hafa haft hugann við töfluna heldur einblíndu á frammistöður á tímabilinu.
„Við spáðum ekkert í töflunni og höfðum engin markmið og stig, sæti eða slíkt. Við sigldum svolítið blint í sjóinn en fyrst og fremst vegna þess að þetta var okkar fyrsta tímabil saman og við vildum frekar leggja áherslu á að búa til okkar sjálfsmynd á vellinum. Við höfum þróað með okkur ákveðna þráhyggju yfir frammistöðum.“
„Við vildum gera þetta á okkar forsendum og spiluðum tvo frábæra leiki sem skiluðu okkur stigunum sex sem vantaði til að komast upp. Við vorum allan tímann í séns á að komast upp en þetta snerist ekki beint um það hjá okkur.“
„Leikmenn vilja bara verða bestu leikmenn sem þeir geta orðið og við viljum verða besta lið sem við getum orðið. Ef frammistaðan okkar út frá okkar forsendum hefði skilað okkur 3. sæti en ekki 2. sæti þá hefði svo þurft að vera. Stelpurnar sýndu mikið hugrekki í hvernig þær spiluðu síðustu leikina þegar pressan og utanaðkomandi áreiti voru orðin aðeins meiri.“
Gylfi segir árangurinn hafa mikla þýðingu fyrir bæjarfélögin tvö og vonast til að Njarðvík leiki árangurinn eftir karlamegin og tryggi sér sæti í Bestu-deildinni.
„Grindavík hefur auðvitað gengið í gegnum sitt og geta verið hrikalega stolt af sínu íþróttafólki sem heldur alltaf áfram og gefst aldrei upp. Þú getur tekið stelpurnar úr Grindavík en þú tekur ekki Grindavík úr stelpunum. Ég held að þetta hafi mikla þýðingu fyrir það öfluga samfélag sem Grindvíkingar eru.“
„Á sama tíma er þetta í fyrsta sinn sem Njarðvík á lið í efstu deild í fótbolta, og vonandi fylgja strákarnir þessu eftir og klára sitt og við spilum saman í efstu deild á næsta ári,“ segir Gylfi að lokum.
Athugasemdir