Heimild: Sýn Sport

Ísland mátti þola grátlegt tap gegn Frakklandi á Prinsavöllum fyrr í kvöld. Arnar Gunnlaugsson var að vonum stoltur af liðinu er hann ræddi við Sýn Sport eftir leik.
Lestu um leikinn: Frakkland 2 - 1 Ísland
„Mér fannst taktíkin ganga vel upp, en auðvitað þarftu smá heppni og frábæra frammistöðu frá varnarmönnunum og Elíasi til að eiga möguleika gegn þessum þjóðum. En við unnum fyrir því að vera heppnir. Mér finnst pressan okkar vera komin upp á næsta stig í síðustu leikjum. En auðvitað var þetta svo bara lágvörn, fókus og læti.“
„Það var svekkjandi að fá vítið á sig rétt fyrir hálfleik og svo voru þetta pjúra gæði í seinna markinu þeirra. Þetta var mjög erfiður leikur, ég væri ekki til í að spila svona leiki í hvert einasta skipti en stundum þarftu að taka þig saman í andlitinu og átta þig á að þú þarft að gera þetta gegn svona toppliðum.“
Arnar var hrifinn af leikmönnum franska liðsins.
„Oft þegar maður er í sjónvarpinu og horfir á þessa gaura spila, hugsar maður geturu ekki gert þetta aðeins betur. En þeir eru rosalega góðir í fótbolta og eru líkamlegir líka. Við áttum erfitt með að vinna eina baráttu í leiknum. Þeir eru með allt annað DNA en við erum með á Íslandi, því miður.“
Ísland skoraði jöfnunarmark undir lok leiks sem var tekið af. Arnar var ósáttur við dómara leiksins og mótmælti dómnum.
„Þú verður að sýna smá prinsipp og standa fast á þínu og láta þá aðeins heyra það. Ég er búinn að róa mig, ég hef þroskast svo mikið og er mun rólegri núna.“
Arnar var ánægður með gluggan og vill sjá fullan Laugardalsvöll í næsta landsliðsverkefni sem er í október.
„Þetta var frábær gluggi. Við settum okkur markmið að vinna Aserbaídsjan og gefa Frökkum góðan leik og svo fengum við bónus úrslit í dag í leik Aserbaídsjan og Úkraínu. Ég held að það sé það sem við tökum með okkur, frábær gluggi. Við getum endalaust talað um VAR og ekki, en það skiptir ekki máli úr þessu. Hugsum bara um það jákvæða og reynum að troðfylla á báða heimaleikina. Það er frábær gluggi framundan þar sem við mætum Úkraínu og Frökkum.“
Athugasemdir