Það var brotist inn á skrifstofu FH í nótt og peningahirslu stolið. Öryggiskerfið fór í gang en þegar rætt var við Davíð Þór Viðarsson, yfirmann fótboltamála hjá FH, var ekki vitað hver það var sem braust inn.
„Það var brotist inn á skrifstofuna hjá okkur í nótt, það er ekki vitað hver þetta var, ekki að svo stöddu allavega en það er verið að skoða það. Það virðist vera að það eina sem var stolið hafi verið peningahirsla. Ég held því að við höfum sloppið ágætlega," segir Davíð við Fótbolta.net.
Er það verulegur skaði ef það sem er inni í hirslunni skilar sér ekki til baka?
„Þetta mál er í skoðun og takmarkað hægt að segja á þessum tímapunkti, það var frekar óþægileg sjón þegar maður kom að þessu í morgun."
Voru einhver viðkvæm skjöl sem voru tekin?
„Nei, það virðist ekki vera. Ég held að það hafi bara verið einn ásetningur; að fara inn, finna einhver peningaverðmæti og koma sér svo út. Kerfið fór í gang. Þetta er á borði lögreglunnar núna, það er verið að skoða þetta. Þetta er leiðinlegt og óþægilegt að lenda í þessu."
„Það er kannski skrítið að kalla þetta peningahirslu, það er ekki eins og við höfum verið að geyma einhverjar milljónir, en þetta var lokaður skápur með einhverjum fjármunum í," segir Davíð.
Athugasemdir