Eins og í Lengjudeildinni, þá fer lokaumferðin í 2. deild karla fram á laugardaginn klukkan 14:00 (einn leikur hefst klukkan 15:00). Enn er ekkert lið komið upp en það eru þrjú lið sem berjast um að komast upp í Lengjudeildina.
Á hinum enda töflunnar eru þrjú lið að berjast um að fara ekki niður í 3. deild með Hetti/Hugin sem er á botni deildarinnar.
Á hinum enda töflunnar eru þrjú lið að berjast um að fara ekki niður í 3. deild með Hetti/Hugin sem er á botni deildarinnar.
laugardagur 13. september
14:00 Víðir-Ægir (Nesfisk-völlurinn)
14:00 KFG-KFA (Samsungvöllurinn)
14:00 Kári-Haukar (Akraneshöllin)
14:00 Grótta-Þróttur V. (Vivaldivöllurinn)
14:00 Dalvík/Reynir-Víkingur Ó. (Dalvíkurvöllur)
15:00 Höttur/Huginn-Kormákur/Hvöt (Fellavöllur)

Svakalegur leikur á Seltjarnarnesi
Fyrir lokaumferðina er Þróttur Vogum á toppi deildarinnar með 42 stig en svo koma Ægir og Grótta með stigi minna. Þróttarar og Gróttumenn hafa verið gríðarlega sterkir að undanförnu en bæði þessi lið hafa unnið fimm leiki í röð. Ægismenn hafa unnið tvo leiki í röð en þeir voru í bestu stöðunni fyrir nokkrum vikum síðan.
Það verður rosalegur leikur á Seltjarnarnesi í lokaumferðinni þar sem Grótta tekur á móti Þrótti Vogum. Þarna eru tvö heitustu lið deildarinnar að mætast og þau eru bæði að gera sér vonir um að fara upp.
Ægir mætir á sama tíma Víði Garði á útivelli, liði sem er að berjast fyrir lífi sínu í deildinni.
Ef Ægir tapar, þá nægir bæði Gróttu og Þrótti Vogum jafntefli til að fara saman upp. En ef Ægir gerir jafntefli við Víði, þá þarf Grótta að vinna til að fara upp þar sem Ægismenn eru með betri markatölu en Seltirningar. Það verður allavega gaman að fylgjast með þessum tveimur leikjum.
Þrjú lið að berjast fyrir lífi sínu
Á hinum enda töflunnar eru KFG, Kári og Víðir að berjast fyrir lífi sínu í deildinni. KFG er með 22 stig, Kári er með 21 stig Víðismenn eru með 20 stig.
Þess vegna verður leikur Víðis og Ægis enn áhugaverðari þar sem það er mikið undir hjá báðum þessum liðum. Kári er með langslökustu markatöluna þannig að jafntefli gæti dugað Víði til að halda sér uppi, ef Kári tapar gegn Haukum á sama tíma.
KFG er í bestu stöðunni en þeir taka á móti KFA í Garðabænum. Það er ekki víst að jafntefli dugi fyrir KFG en ef Víðir og Kári vinna bæði, þá þarf KFG að vinna til að halda sér uppi í ljósi þess að Víðir er með betri markatölu en Garðabæjarfélagið.
Ekkert undir hjá fimm liðum
Það er ekkert undir hjá Kormáki/Hvöt, Dalvík/Reyni, KFA, Haukum og Víkingi Ólafsvík. Líklega eru öll þessi lið ósátt með sína stöðu fyrir utan kannski Kormák/Hvöt sem var spáð falli fyrir tímabilið. Annað tímabilið í röð er Kormákur/Hvöt að koma á óvart.
Dalvík/Reynir og Víkingur Ó. mætast í lokaumferðinni og þá heimsækir Kormákur/Hvöt lið Hattar/Hugins sem er nú þegar fallið úr deildinni. Haukar spila við Kára og KFA spilar við KFG, það eru tvö lið sem eru með mikið undir.
Það verður svo sannarlega áhugavert að fylgjast með þessari lokaumferð og Lengjudeildinni á sama tíma, en þar er líka gríðarleg spenna.
Athugasemdir