Franska goðsögnin Thierry Henry segir ráðninguna á næsta landsliðsþjálfara Frakka vera verst geymda leyndarmál fótboltans.
Didier Deschamps hefur tilkynnt að HM 2026 verði hans síðasta verkefni sem þjálfari franska liðsins.
Hann hefur stýrt Frökkum frá 2012 og á þessum þrettán árum komið þeim í tvígang í úrslit heimsmeistaramótsins og unnið einu sinni.
Það er vitað mál hver mun taka við keflinu af Deschamps, en það er enginn annar en Zinedine Zidane. Hann hefur hafnað tilboðum frá fjölda stórliða síðan hann hætti með Real Madrid í annað sinn, enda beðið þolinmóður eftir að Deschamps láti af störfum.
„Við vitum öll hver verður næsti þjálfari landsliðsins. Þú veist það og ég veit það. Ég óska honum alls hins besta,“ sagði Henry á CBS.
Athugasemdir