Spænski vængmaðurinn Lamine Yamal var nálægt því að ganga í raðir Bayern München fyrir þremur árum, en umboðsmannaskipti urðu til þess að hann hélt kyrru fyrir hjá Börsungum.
Viðræður Bayern og Yamal voru komnar langt á veg og stefndi allt í að leikmaðurinn væri á leið til Þýskalands, en BILD segir frá því hvernig allt breyttist á ögurstundu.
Yamal skipti um umboðsmann og fékk þekktasta umboðsmann heims, Jorge Mendes, til að stýra skútunni.
Mendes sannfærði Yamal um að hafna Bayern og vera áfram hjá Barcelona.
Á þessum tíma var Yamal 14 ára og ekki byrjaður að spila með aðalliði Börsunga, en aðeins ári síðar stimplaði hann sig inn í aðalliðið.
Yamal, sem er 18 ára gamall, er einn af bestu leikmönnum heims í heims. Hann var lykilmaður í A-landsliði Spánverja sem vann EM á síðasta ári og hefur heldur betur stimplað sig inn í lið Börsunga sem varð Spánarmeistari á síðustu leiktíð.
Hann hefur komið að 64 mörkum í 109 leikjum með Barcelona, sem eru ótrúlegar tölur miðað við aldur.
Góð ákvörðun hjá Spánverjanum á meðan Bayern mun naga sig í handarbökin um ókomna tíð fyrir að hafa ekki náð að loka viðræðunum.
Athugasemdir