Liverpool mun ekki selja Chiesa - Völdu Onana fram yfir Ortega - Arsenal líklegasti áfangastaður Stiller - Real Madrid horfir til Bayern
   þri 09. september 2025 20:50
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
París
Einkunnir Íslands - Grátlegt tap í París eftir öfluga frammistöðu
Icelandair
Súrt tap þegar uppi var staðið.
Súrt tap þegar uppi var staðið.
Mynd: EPA
Elías var mjög góður í leiknum.
Elías var mjög góður í leiknum.
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Ísland mætti þriðja besta landsliði heims samkvæmt heimslista FIFA á Prinsavöllum í París í kvöld.

Ísland komst yfir í leiknum en Frakkar svöruðu með tveimur mörkum og unnu 2-1 sigur. Ísland skoraði undir lok venjulegs leiktíma, Andri Lucas virtist vera að jafna metin en eftir VAR skoðun fékk markið ekki að standa. Strákarnir sýndu mikla baráttu, hjarta og dugnað og geta verið ansi súrir með að hafa ekki fengið stig í frönsku höfuðborginni.

Lestu um leikinn: Frakkland 2 -  1 Ísland

Byrjunarliðið
Elías Rafn Ólafsson - 9 (Maður leiksins)
Varði virkilega vel oft á tíðum. Í tvígang átti hann vörslur af stuttu færi í fyrri hálfleik þar sem hann var vel staðsettur og svo ein mögnuð tvöföld varsla. Mjög góð varsla frá Mbappe í seinni hálfleik, en flaggið fór á loft í kjölfarið. Gat ekkert gert í mörkunum.

Daníel Leó Grétarsson ('82) - 7
Lék vel í dag, virðist ná vel saman með Sverri og það var ekki mikið af vandamálum i kringum Daníel.

Guðlaugur Victor Pálsson - 6
Átti fínasta leik en sat eftir í stungusendingunni í öðru markinu og því var Mbappe réttstæður.

Sverrir Ingi Ingason - 7
Eins og klettur í hjarta varnarinnar, mjög öruggur og ró í kringum hann. Átti fína tilraun með höfðinu í seinni hálfleiknum en því miður rataði boltinn ekki á markið. Spurningarmerki hvort hann átti að stíga upp í öðru markinu eða falla aftur og éta sendinguna frá Tchouameni.

Mikael Egill Ellertsson - 7
Stóð sig vel varnarlega, vantaði smá ró á hann með boltann og upp á ákvarðanatöku. Heilt yfir flottur leikur hjá honum í vinstri bakverðinum.

Mikael Neville Anderson ('63) - 5
Mjög klaufalegur varnarleikur þegar hann steig á Thuram í lok fyrri hálfleiks og vítaspyrnan var dæmd. Sinnti annars varnarvinnunni ágætlega og bauð upp á hlaup upp kantinn sem stækkuðu völlinn.

Hákon Arnar Haraldsson - 8,5
Gríðarleg vinnusemi inni á miðsvæðinu, mikilvæg varnarlega en ekki síður sóknarlega til að teygja aðeins á Frökkunum. Mjög góður á boltann og ekkert stress, gefur alltaf allt í leikina og er algjör lykilmaður í íslenska liðinu. Flott spyrna sem rataði á kollinn á Sverri Inga í seinni hálfleiknum. Átti sendinguna á Andra Lucas í „jöfnunarmarkinu" sem ekki fékk að telja.

Ísak Bergmann Jóhannesson ('70) - 8
Heilt yfir mjög góður í leiknum, sérstaklega í fyrri hálfleiknum. Var svolítið heppinn í byrjun seinni þegar hann átti slaka sendingu og Frakkar komust í mjög góðan séns. Varnarvinnan til fyrirmyndar og hljóp eins og hann gat í þær 70 mínútur sem hann spilaði, gaman að vera með miðjumann sem þorir að taka sendingar upp völlinn meðfram jörðinni.

Jón Dagur Þorsteinsson ('70) - 8,5
Varnarvinna upp á 10, tók spretti til baka og hjálpaði liðinu með því. Hélt einu sinni í við Mbappe sem er enginn hægðarleikur. Bauð upp á hlaup á vinstri kantinum og varð svo fyrir hrikalegri tæklingu frá Tchouameni sem sá rautt fyrir. Í kjölfarið fór Jón Dagur af velli.

Daníel Tristan Guðjohnsen ('63) - 7
Duglegur frammi og lét finna vel fyrir sér. Gerði líka nokkuð vel með boltann, var fljótur að sjá lausa samherja og leit ekki út fyrir að vera spila einungis sinn annan landsleik.

Andri Lucas Guðjohnsen - 8
Virkilega duglegur fremst á vellinum og var að valda usla með góðri pressu. Gerði virkilega vel að vera tilbúinn í markinu, skoraði með frábæru skoti í fyrsta af stuttu færi, vel á tánum! Alir héldu að hann væri að jafna leikinn undir lok leiks en VAR fann brot á hann, peysutog, sem var ansi lítið.

Varamenn
Sævar Atli Magnússon ('63) - 6
Bjarki Steinn Bjarkason ('63) - 6

Stefán Teitur Þórðarson ('70) - 5,5
Var heppinn að gefa ekki mark.

Þórir Jóhann Helgason ('70) - 6,5
Kom sterkur inn á miðsvæðið.

Kristian Nökkvi Hlynson ('82) - Spilaði ekki nóg til að fá einkunn
Athugasemdir
banner
banner