Ítalski vængmaðurinn Federico Chiesa verður áfram í herbúðum Liverpool á þessari leiktíð þrátt fyrir áhuga frá tyrkneskum félögum en þetta kemur fram í Gazzetta dello Sport.
Chiesa var orðaður við heimkomu í sumar og var það möguleiki sem hann var alvarlega að skoða, en eftir að hafa fengið traustið frá Arne Slot ákvað hann að halda kyrru fyrir.
Hann hefur komið inn af bekknum í öllum deildarleikjum Liverpool á tímabilinu og skorað eitt mark.
Ítalinn var óvænt utan hóps í Meistaradeildinni í deildarkeppninni og fóru aftur sögusagnir af stað að hann gæti farið til Tyrklands, en glugginn þar lokar á morgun.
Gazzetta dello Sport segir það af og frá að hann fari frá Liverpool á næstu dögum.
Chiesa sagðist frekar vilja halda áfram að æfa og spila með toppleikmönnum og að hann hafi ekki viljað taka áhættu á að fara annað þegar HM er á næsta leiti.
Einnig kemur fram að hann hafi óttast að heimkoma til Ítalíu færi á versta veg og myndi mögulega eyðileggja möguleika hans á að spila á heimsmeistaramótinu.
Þetta eru góðar fréttir fyrir Liverpool sem mun þurfa breiddina ætli liðið sér að verja Englandsmeistaratitilinn.
Athugasemdir