Anderson til United? - Arsenal í viðræðum við lykilmenn - Tveir á förum frá United - 18 ára vekur athygli
   fim 11. september 2025 16:51
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Engin umræða um framtíð Ólafs Inga hjá KSÍ
Af hverju var Gísli Gotti ekki með U21?
Icelandair
Ólafur Ingi Skúlason er þjálfari U21 landsliðsins.
Ólafur Ingi Skúlason er þjálfari U21 landsliðsins.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Gísli Gotti var í fyrsta sinn í A-landsliðinu.
Gísli Gotti var í fyrsta sinn í A-landsliðinu.
Mynd: KSÍ
A-landsliðið vann Aserbaísjan og sýndi svo mjög góða frammistöðu gegn Frökkum.
A-landsliðið vann Aserbaísjan og sýndi svo mjög góða frammistöðu gegn Frökkum.
Mynd: EPA
Daníel Tristan er fæddur 2006 og spilaði sína fyrstu A-landsleiki núna í september.
Daníel Tristan er fæddur 2006 og spilaði sína fyrstu A-landsleiki núna í september.
Mynd: Helgi Þór Gunnarsson
Færeyjar unnu sigur á íslenska U21 landsliðinu.
Færeyjar unnu sigur á íslenska U21 landsliðinu.
Mynd: Hrefna Morthens
U21 landsliðið okkar átti ekki góðan landsleikjaglugga, liðið tapaði 1-2 heima gegn Færeyjum og gerði svo 1-1 jafntefli gegn Eistlandi ytra. Ísland er í sex liða riðla í undankeppni HM. Í riðlinum eru einnig Frakkland, Sviss og Lúxemborg. Efsta lið riðilsins fer beint á EM 2027, stigahæsta liðið af liðunum sem enda í 2. sæti síns riðils fer beint á EM líka og hin liðin sem enda í 2. sæti síns riðils fara í umspil.

Jörundur Áki Sveinsson er yfirmaður fótboltamála hjá KSÍ og ræddi hann við Fótbolta.net um U21 landsliðið. Fyrsta spurning var út í þjálfarann, Ólaf Inga Skúlason, hvort að það væri einhver umræða um framtíð hans.

„Það er alveg rétt að þetta var ekki góður gluggi hjá U21, allir sammála því, en það er ekki nein umræða um framtíð þjálfarans. Bæði þjálfarar, leikmenn og þeir sem standa að liðinu eru sammála um að þessi gluggi hafi verið vonbrigði, en stundum er þetta svona. Við vitum það að fótbolti er þannig íþrótt að litlu liðin geta náð úrslitum gegn stærri þjóðum, við af öllum ættum að þekkja það nokkuð vel. Við lítum svo á að þetta sé lærdómur fyrir alla og við munum koma sterkari inn í næsta glugga. Menn eru svekktir núna, en svona er þetta stundum, stundum ganga hlutirnir upp en stundum ekki."

„Í leiknum á móti Eistlandi fannst mér liðið sýna mikinn karakter, styrk og vilja að sækja í það minnsta stig og vorum óheppnir að vinna ekki undir lokin; fengum tvö dauðafæri. Stundum er þetta stöngin út og það var þannig í þetta skiptið. Við vorum 70% með boltann í seinni hálfleik, manni færri. Auðvitað er hægt að týna alls konar til, það voru leikmenn sem voru ekki með sem öllu jafna eru í þessu liði, en engu að síður eru þarna góðir leikmenn sem fengu tækifæri. Nú eru þjálfararnir að fara yfir og greina stöðuna, en það er engin umræða hér innanhúss um að fara skipta um þjálfara,"
segir Jörundur.

Gísli Gotti í A-landsliðinu
Einn af leikmönnunum sem hefði getað verið með U21 í verkefninu var Gísli Gottskálk Þórðarson sem var með A-landsliðinu en spilaði ekki mínútu þar. Er eitthvað rætt hlutverk leikmanna hjá A-landsliðinu sem koma til greina í U21 landsliðið áður en valið er í hópana?

„Það er frábært að Gísli sé í A-landsliðinu. Hlutverk manna er auðvitað rætt fyrir verkefni, en við lítum á það sem svo að það sé hlutverk okkar að búa til leikmenn sem verði framtíðar A-landsliðsmenn Íslands. Við lítum á það sem gott hrós á starfið okkar ef ungir leikmenn okkar eru að færast upp í A-landsliðið, í gegnum landsliðsstigann okkar, og Gísli Gotti er gott dæmi um það. Það að hann hafi ekki spilað mínútu er bara partur af þessu. Hann er að koma í þetta umhverfi í fyrsta skipti, kynnist leikmannahópnum og öllu umhverfinu sem er á stærri skala en í yngri landsliðunum. Við sjáum hann fyrir okkur sem framtíðarmann."

„Auðvitað er eðlilegt að fólk spyrji sig að þessari spurningu, en stundum er þetta bara í svona, þetta er alls ekki í fyrsta skiptið sem svona gerist. Lúkas Petersson og Kristian Hlynsson eru dæmi um leikmenn sem hafa ekki spilað með A-landsliðinu en hefðu getað verið í U21 landsliðinu, og það mætti lengi telja. Við lítum á þetta þannig að A-landsliðið gengur fyrir, þjálfari þess liðs vildi hafa Gísla Gotta og fleiri unga í A-landsliðinu. Það er bara frábært, það er sú þróun sem við viljum sjá; að ungir leikmenn fái tækifæri ef þeir eru nógu góðir og landsliðsþjálfarinn taldi þetta sterkasta hópinn. Þá er bara okkar að styðja það."


Er eitthvað breytt markmið hjá U21 eftir þessi úrslit?
„Nei, það er bara rætt þannig að núna þarf mögulega að fara einhverja erfiðari leið í að ná í stig sem við vorum búnir að sjá fyrir okkur... auðvitað vildum við vinna heimaleik á móti Færeyjum og við vildum líka vinna á móti Eistlandi. Núna þurfum við að reyna ná í eins mörg stig á útivelli og við mögulega getum og vinna þá heimaleiki sem eftir eru. Það er meginmarkmiðið."

„Að sjálfsögðu er svo hluti af þessu að þróa framtíðarlandsliðsmenn inn í landsliðsumhverfinu og stytta leið þeirra inn í A-liðið. Við sjáum fullt af leikmönnum í U21 landsliðinu sem gera tilkall í A-landsliðið. Það eru gríðarlega efnilegir leikmenn sem sjá að það sé mögulega styttra í tækifærið þegar þeir sjá Gísla Gotta, Daníel Tristan og Kristian Hlynsson sem eru fæddir 2004 og 2006. Það er bara að grípa tækifærið, halda áfram og vinna vel í sínum málum. Arnar Gunnlaugsson og hans teymi er að horfa til þess að gefa ungum leikmönnum tækifæri ef þeir eiga það skilið og eru að standa sig vel. Það eru strákar sem hafa fengið smjörþefinn, Eggert Aron sem dæmi. Það er ótrúlega stutt á milli. Við höldum ótrauð áfram og höldum áfram að vinna vel að því sem við erum að gera dagsdaglega."


Mikil ánægja með gluggann hjá A-landsliðinu
„Við erum ótrúlega ánægð með gluggann hjá A-karla. Við sjáum að liðið er á flottri leið í að verða gott og Arnar hefur komið með ferska vinda inn í þetta. Við erum ótrúlega ánægð með stöðuna og núna þurfum við að fylgja þessu eftir með frábærum glugga í október. Að vera í þessari stöðu var það sem við vorum að vonast til og við finnum fyrir því að það sé mikill meðbyr með því sem við erum að gera. Það að U21 hafi átt slæman glugga er bara partur af því, stundum er það bara þannig og við tökum það á kassann. Bara áfram gakk," segir Jörundur.
Landslið karla - HM 2026
Lið L U J T Mörk mun Stig
1.    Frakkland 2 2 0 0 4 - 1 +3 6
2.    Ísland 2 1 0 1 6 - 2 +4 3
3.    Úkraína 2 0 1 1 1 - 3 -2 1
4.    Aserbaísjan 2 0 1 1 1 - 6 -5 1
Landslið karla - U21 - Undankeppni EM
Lið L U J T Mörk mun Stig
1.    Færeyjar 3 3 0 0 5 - 2 +3 9
2.    Sviss 1 1 0 0 2 - 0 +2 3
3.    Ísland 2 0 1 1 2 - 3 -1 1
4.    Eistland 3 0 1 2 2 - 5 -3 1
5.    Frakkland 0 0 0 0 0 - 0 0 0
6.    Lúxemborg 1 0 0 1 0 - 1 -1 0
Athugasemdir
banner