Anderson til United? - Arsenal í viðræðum við lykilmenn - Tveir á förum frá United - 18 ára vekur athygli
   fim 11. september 2025 19:02
Ívan Guðjón Baldursson
Besta deildin: Skagamenn skelltu Blikum
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
ÍA 3 - 0 Breiðablik
1-0 Ómar Björn Stefánsson ('12)
2-0 Gísli Laxdal Unnarsson ('37)
3-0 Steinar Þorsteinsson ('99)

Lestu um leikinn: ÍA 3 -  0 Breiðablik

Botnlið ÍA tók á móti Íslandsmeisturum Breiðabliks í eina leik dagsins í Bestu deild karla og byrjuðu heimamenn mjög vel á Skaganum.

Þeir tóku forystuna á tólftu mínútu þegar Ómar Björn Stefánsson setti boltann í netið eftir að boltinn datt heppilega fyrir hann innan vítateigs. Fyrirgjöf Johannes Vall fór af tveimur varnarmönnum Blika áður en boltinn endaði hjá Ómari.

Blikar gerðu sig líklega til að jafna en tókst ekki. Þess í stað tvöfaldaði Gísli Laxdal Unnarsson forystuna með þrumuskoti eftir einfalda sendingu frá Marko Vardic við vítateigslínuna.

Bæði lið reyndu að sækja mark fyrir leikhlé en tókst ekki. Breiðablik átti skot í stöng og svo voru Skagamenn ósáttir þegar dómarinn flautaði hálfleikinn af. Þeir töldu sig vera komna í afbragðsstöðu til að sleppa í gegn.

Í síðari hálfleiknum áttu Blikar í erfiðleikum með að finna glufur á sterkri vörn Skagamanna. Þegar þeir fundu glufur var Árni Marinó Einarsson tilbúinn á milli stanganna til að verja boltann. Rúnar Már Sigurjónsson lék í miðverði í dag og átti mjög góðan leik.

Blikum tókst ekki að minnka muninn í venjulegum leiktíma og var 9 mínútum bætt við. Þeir lögðu allt púður í sóknarleikinn en var refsað með marki. Steinar Þorsteinsson skoraði eftir skyndisókn til að innsigla frækinn 3-0 sigur gegn Íslandsmeisturunum.

Þessi sigur er afar dýrmætur fyrir Skagamenn sem sitja áfram á botni deildarinnar. Þeir eru núna með 19 stig eftir 21 umferð - fimm stigum frá öruggu sæti í deild þegar aðeins ein umferð er eftir fyrir tvískiptingu.

ÍA hefur því sex leiki til að bjarga sér frá falli.

Þetta er aftur á móti mikill skellur fyrir titilvonir Breiðabliks. Blikar hafa átt hörmulegu gengi að fagna síðustu vikur og eru sjö stigum á eftir toppliði Vals.

Breiðablik er núna búið að tapa þremur og gera þrjú jafntefli í síðustu sex deildarleikjum sínum.
Athugasemdir
banner