
Þróttur hefur hafið samstarf við ítalska stórveldið Inter Milan. Liðin áttu í góðum samskiptum í tengslum við félagaskipti Björns Darra Oddgeirssonar sem gekk til liðs við ítalska stórveldið í síðustu viku að láni með kaupákvæði.
Jón Hafsteinn Jóhannsson framkvæmdastjóri Þróttar segir í samtali við Fótbolti.net að samstarfið hafi sprottið út frá samskiptum varðandi félagsskipti Björns Darra og segist eiga eftir að sjá hve öflugt samstarfið verður.
„Í kjölfar viðræðna um Björn áttu sér stað samskipti á milli félaganna. Þeir eru áhugasamir að tengjast klúbbum í Skandinavíu betur og sýndu áhuga á okkar starfi. Auðvitað á maður eftir að sjá hversu öflugt samstarfið verður. Svo standa auðvitað vonir um að fá einhvern til okkar. Jafnvel að þeir komi með lið á ReyCup. Að öðru leyti eigum við að fara með þjálfara til þeirra og séð og unnið í kringum þá.“
Er Inter með fleiri leikmenn Þróttar í sigtinu?
„Ekkert beint, en þeir vita af fleiri leikmönnum sem koma upp úr okkar starfi. Venni vill ekki sjá að þeir týni leikmenn upp úr okkar starfi alveg strax,“ segir Jón léttur í bragði og talar um Sigurvin Ólafsson, þjálfara karlaliðs Þróttar.
Er möguleiki á að Þróttur fái leikmenn frá Inter í staðinn?
„Ég er ekki farinn að hugsa svo langt, á ekki endilega von á því. Ég ætla ekki að útiloka það, en geri mér samt ekki háar vonir,“ segir Jón.
Framkvæmdarstjórinn segir mikið af efnilegum leikmönnum að koma upp úr starfi Þróttar, bæði karla- og kvennamegin.
„Þó að þetta séu ekki sömu aðilar á bakvið karla- og kvennadeildina. Þá er leið þarna inn. Við erum með fyrirhugaða ferð þarna út til að kíkja á starf þeirra og fylgjum þá Birni Darra eftir.“
Athugasemdir