Victor Nilsson Lindelöf mun áfram bera fyrirliðabandið hjá sænska landsliðinu, sem nú er undir stjórn Graham Potter. Lindelöf hefur verið fyrirliði liðsins frá árinu 2021.
Potter tók við stjórnartaumunum á sænska landsliðinu fyrir nýhafinn landsliðsglugga, eftir að Jon Dahl Tomasson var látinn fara.
Svíþjóð á ekki lengur möguleika á að vinna sinn riðil í undankeppninni en gæti samt komist á HM þrátt fyrir að ná ekki öðru sætinu. Svíþjóð gæti komist í umspil vegna árangurs síns í Þjóðadeildinni þar sem liðið vann sinn riðil.
Lindelöf hefur fengið lítið að spila með Aston Villa í byrjun tímabilsins og aðeins komið við sögu í 21 mínútu í ensku úrvalsdeildinni. Hann hefur þó komið meira við sögu í Evrópudeildinni með liðinu.
„Ég tel hann reynslumikinn leikmann sem veit hvað þarf til í landsliðinu. Hann er góður leiðtogi innan hópsins og ég er nokkuð viss um að hann geti hjálpað okkur mikið við að koma skilaboðum til leikmannanna,“ sagði Potter á blaðamannafundi aðspurður um fyrirliðavalið.
Athugasemdir




