
Oft er talað um 'þær fimm stóru' þegar rætt er um stærstu og vinsælustu deildakeppnir Evrópu í fótboltanum. Þetta eru efstu deildir Englands, Þýskalands, Spánar, Ítalíu og Frakklands.
„Þær hafa í gegnum árin borið höfuð og herðar yfir aðrar deildir heims, sér í lagi þegar kemur að tekjum og velgengni í Evrópukeppnum. Íslendingar hafa átt fjölmarga fulltrúa í deildunum eða um 50 talsins síðan Albert Guðmundsson var fyrsti íslenski atvinnumaðurinn," sagði Kristjana Arnarsdóttir þegar hún bar upp spurningu í sjónvarpsþættinum Gettu Betur á föstudaginn.
Í þættinum kom fram að áðurnefndur Albert, sem gerði garðinn frægan á fimmta áratug síðustu aldar, sé einn þriggja Íslendinga sem hafa leikið í þremur af stærstu deildum Evrópu. Hinir eru Eiður Smári Guðjohnsen og Þórður Guðjónsson.
„Þegar best lét lék um tugur íslenskra leikmanna samtímis í deildunum fimm en þessa dagana er aðeins einn leikmaður eftir á mála hjá þessum bestu deildum Evrópum eftir að Mikael Egill Ellertsson hvarf á braut úr ítölsku Serie-A," sagði Kristjana.
Hvaða leikmaður er það? Verkmenntaskóli Austurlands ýtti á bjölluna og svaraði rétt. Það dugði þó skammt því Fjölbrautaskóli Suðurlands vann að lokum viðureignina og komst í úrslitaþáttinn þar sem mótherjinn verður MR.
Rétt svar er landsliðsmaðurinn Þórir Jóhann Helgason sem spilar fyrir Lecce í ítölsku A-deildinni. Þar er Þórir í hlutverki varamanns, hann hefur komið við sögu í átta leikjum en aldrei spilað meira en 45 mínútur. Hann kom inn af bekknum gegn Inter á dögunum og lék átta mínútur.
Þó aðeins einn Íslendingur sé í einhverri af sterkustu deildum Evrópu í dag fjölgar þeim vonandi á næsta tímabili. Jóhann Berg Guðmundsson og Albert Guðmundsson gætu spilað þar á næsta tímabili eins og rætt var um í útvarpsþættinum Fótbolti.net á X977.
Athugasemdir