Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   sun 12. mars 2023 15:58
Brynjar Ingi Erluson
England: Þægilegt hjá Arsenal - Casemiro sá rautt í markalausu jafntefli gegn botnliði Southampton
Martin Ödegaard fagnar marki sínu með Leandro Trossard sem lagði upp þrjú mörk í dag
Martin Ödegaard fagnar marki sínu með Leandro Trossard sem lagði upp þrjú mörk í dag
Mynd: Getty Images
Casemiro var skúrkurinn á Old Trafford
Casemiro var skúrkurinn á Old Trafford
Mynd: Getty Images
West Ham gerði 1-1 jafntefli við Aston Villa
West Ham gerði 1-1 jafntefli við Aston Villa
Mynd: Getty Images
Arsenal er aftur komið með fimm stiga forystu í efsta sæti ensku úrvalsdeildarinnar eftir öruggan 3-0 sigur á Fulham í 27. umferð deildarinnar í dag. Mancheser United missteig sig gegn botnliði Southampton en liðin skildu jöfn, 0-0. Casemiro fékk að líta rauða spjaldið eftir hálftímaleik.

Arsenal vann auðveldan 3-0 sigur á Fulham á Craven Cottage.

Gestirnir pressuðu frá fyrstu mínútu og töldu sig hafa skorað löglegt mark á 16. mínútu er Bernd Leno varði skot Gabriel Martinelli í áttina að Antonee Robinson sem kom boltanum í eigið net. VAR dæmdi markið af vegna rangstöðu á Martinelli í aðdragandanum.

Það skipti engu máli. Fimm mínútum síðar kom Gabriel Magalhaes toppliðinu í forystu með skalla eftir hornspyrnu Leandro Trossard og þá lagði belgíski leikmaðurinn upp annað mark sitt í leiknum aðeins fimm mínútum síðar fyrir Martinelli.

Arsenal fékk nokkur tækifæri til að bæta við þriðja markinu en Bernd Leno hélt Fulham á lífi. Hann gat þó lítið gert í uppbótartíma fyrri hálfleiks er Trossard kom með laglega fyrirgjöf á Martin Ödegaard sem fékk allan tímann í heiminum til að athafna sig áður en hann skoraði.

Aleksandar Mitrovic fékk besta færi Fulham í leiknum en hann kom boltanum í slá eftir hornspyrnu.

Auðvelti og öruggt hjá Arsenal sem er aftur komið með fimm stiga forystu í efsta sæti deildarinnar.

Casemiro skúrkurinn í markalausu jafntefli

Manchester United og Southampton gerðu markalaust jafntefli á Old Trafford.

Theo Walcott fékk besta færi Southampton í fyrri hálfleik er David De Gea varði skalla hans á 23. mínútu. Níu mínútum síðar var Casemiro rekinn af velli og það réttilega er hann fór í ljóta tæklingu á Carlos Alcaraz. Hann fékk upphaflega gula spjaldið frá Anthony Taylor, dómara leiksins, en breytti litnum eftir frekari skoðun VAR.

Raphael Varane fékk fínasta tækifæri eftir aukaspyrnu Bruno Fernandes en Gavin Bazunu varði vel. Undir lok fyrri hálfleiksins vildi United fá tvær vítaspyrnur. Fyrst féll Fernandes í teignum eftir tæklingu frá Kyle Walker-Peters, en ekkert dæmt og þá vildu United-menn fá hendi og víti á Armel Bella-Kotchap, en aftur sleppti Taylor því að dæma.

Það færðist meira fjör í leikinn í þeim síðari. Aaron Wan-Bissaka bjargaði á línu eftir að fyrirgjöf Walker-Peters fór af Scott McTominay og framhjá De Gea en Wan-Bissaka var réttur maður á réttum stað og hreinsaði frá.

Aukaspyrnusérfræðingurinn James Ward-Prowse átti skot úr aukaspyrnu í þverslá og yfir markið á 54. mínútu og tíu mínútum síðar klúðraði Walcott dauðafæri er hann slapp í gegn en De Gea kom til bjargar.

Á 67. mínútu var Fernandes nálægt því að koma United í forystu er skot hans af 25 metra færi en Bazunu tóks að teygja sig í boltann og þaðan í stöng. Walker-Peters þrumaði þá boltanum í stöng hinum megin á vellinum.

Ótrúlegt að ekkert mark hafi komið í þennan leik. Lokatölur 0-0 á Old Trafford. United er í þriðja sæti með 51 stig en Southampton með 22 stig í neðsta sæti.

West Ham og Aston Villa gerðu þá 1-1 jafntefli í Lundúnum. Ollie Watkins skoraði með skalla á 17. mínútu en Said Benrahma svaraði með marki úr vítaspyrnu eftir að Leon Bailey gerðist brotlegur innan teigs.

Emiliano Martínez, markvörður Villa, átti nokkrar frábærar vörslur í leiknum og sá til þess að Villa færi heim með stig. West Ham situr í 17. sæti með 24 stig en Villa í 11. sæti með 35 stig.

Úrslit og markaskorarar:

Fulham 0 - 3 Arsenal
0-1 Gabriel Magalhaes ('21 )
0-2 Gabriel Martinelli ('26 )
0-3 Martin Odegaard ('45 )

Manchester Utd 0 - 0 Southampton
Rautt spjald: Casemiro, Manchester Utd ('34)

West Ham 1 - 1 Aston Villa
0-1 Ollie Watkins ('17 )
1-1 Said Benrahma ('26 , víti)
Athugasemdir
banner
banner
banner