
Tindastóll tryggði sig áfram í Mjólkurbikarnum í kvöld með 1-3 sigri á Stjörnunni á Samsungvellinum í Garðabæ. Bryndís Rut Haraldsdóttir sagði tilfinninguna æðislega eftir leik.
„Bara æðisleg. Það er bara æðislegt að hafa náð að klára 120 mínútur og koma tveimur mörkum inn í uppbótartíma og svara líka því þegar þær jafna," sagði Bryndís.
Tindastóll leiddi þegar í uppbótartíma venjulegs leiktíma var komið en Stjarnan jafnaði leikinn á 91. mínútu. Bryndís sagðist ekki hafa fundið fyrir stressi á þessum tímapunkti.
„Nei það er það sem mér fannst geggjað er að liðið sýndi svo mikinn karakter að koma til baka. Við erum búin að lenda í síðustu leikjum akkúrat í þessu, fá mörk á okkur á lokamínútum og klára ekki leikina okkar og við sýndum bara rosa stóran karakter að koma til baka og skora tvö bara æðisleg mörk."
Lestu um leikinn: Stjarnan 1 - 3 Tindastóll
Liðin mættust 27. apríl s.l. á Sauðarkróki þar sem Tindastóll var 1-0 yfir þangað til Stjarnan jafnaði á 89. mínútu og komst yfir á 94. mínútu og vann 2-1. Þær náðu að hefna fyrir svekkelsið í þessum leik.
„Það var alveg extra sætt, við vorum alveg með þetta á bakvið eyrað að við vorum nýlega búnar að spila við þær og við vildum bara sýna betri frammistöðu en þá í lok leiksins og gerðum akkúrat það. Ég er bara rosa stolt og ánægð með liðsheildina og frammistöðuna."
Tindastóll er komið í 8-liða úrslit Mjólkurbikarins.
„Það er bara áfram gakk og bara bikarævintýri vonandi framundan," sagði Bryndís að lokum.
Viðtalið í heild má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.