Man City gæti boðið í Rodrygo - Forest að fá McAtee - Tottenham þreifar á Eze
   þri 12. ágúst 2025 22:48
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Formaður Vals: Mjög spennandi leikmaður en samningsbundinn Njarðvík
Freysteinn Ingi.
Freysteinn Ingi.
Mynd: Fótbolti.net - Hulda Margrét
Birkir er að snúa aftur.
Birkir er að snúa aftur.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Birkir Jakob er fyrst núna að tengja saman nokkrar æfingavikur í röð.
Birkir Jakob er fyrst núna að tengja saman nokkrar æfingavikur í röð.
Mynd: Valur
Valsarar eru á toppi Bestu deildarinnar og þar sem félagaskiptaglugginn lokar annað kvöld heyrði Fótbolti.net hljóði í formanni fótboltadeildar Vals í dag.

Björn Steinar Jónsson svaraði spurningum fréttamanns varðandi gluggann.

Hafa skoðað styrkingar en eru að endurheimta leikmenn
„Ég á síður von á því, en það er aldrei að segja aldrei fyrr en að glugginn lokar," segir Björn Steinar.

„Við lítum þannig á þetta að við séum með mjög sterkan hóp, séu fá ef nokkuð lið með jafnstóran og sterkan hóp eins og við. Við erum að fá menn til baka, Birkir Heimisson kemur t.a.m. inn í hóp í næsta leik hjá okkur, hann var einn besti leikmaður móts áður en hann meiddist. Það er næstum því eins og eins góð gluggastyrking eins og hún gæti verið. (Marius) Lundemo er líka búinn að koma inn á í síðustu tveimur leikjum. Við höfum verið að skoða bæði styrkingu sóknarlega, og mögulega í varnarlínuna, þar sem við höfum verið að glíma við einhver meiðsli."

„Það eru allir nokkuð heilir, Aron og Lundemo eru komnir til baka og Birkir ætti að vera í hóp í næsta leik. Hörður Ingi hefur verið lengi í meiðslum og vonandi styttist í hann. Meiðslalistinn er styttri en hann hefur oft verið."

Ekki fleiri á förum
Hjá Val eru yngri leikmenn sem hafa minna fengið að spila. Leikmenn eins og Andi Hoti, Stefán Gísli Stefánsson, Kristján Oddur Kristjánsson og Birkir Jakob Jónsson. Áttu von á því að einhver gæti farið á láni?

„Nei, það fara ekki fleiri frá okkur, það er alveg pottþétt."

Utan hóps í síðasta leik eftir tvær innkomur
Björn Steinar var sérstaklega spurður út í framherjann Birki Jakob sem var ekki í hóp í síðasta leik en hafði komið við sögu í leikjunum tveimur þar á undan.

„Hann er búinn að vera æfa undanfarnar vikur, var svolítið óheppinn fyrstu mánuðina hjá okkur, lenti í meiðslum og náði ekki að tengja saman margar æfingavikur, smávægileg meiðsli og mismunandi. Hann er búinn að ná því undanfarnar vikur, náð að æfa þrjár vikur í röð núna."

Spennandi leikmaður
Freysteinn Ingi Guðnason hefur verið orðaður við Val, hann er unglingalandsliðsmaður sem er samningsbundinn Njarðvík. Er einhver þróun þar?

„Hann er mjög spennandi leikmaður, en hann er samningsbundinn Njarðvík. Ég held að Njarðvík sé á mjög góðum stað, í dauðafæri að koma sér upp. Heilt yfir er markaðurinn erfiður, öll lið hafa að einhverju að keppa, þétt í Bestu deildinni og sama að segja um ansi mörg lið í Lengjudeildinni. Ég held að menn séu lítið að losa leikmenn."

Björn Steinar var spurður nánar út í möguleikann á því að Valur myndi kaupa Freystein fyrir gluggalok og lána hann til baka, en Björn vildi ekki tjá sig frekar um samningsbundinn leikmann hjá öðru félagi.
Athugasemdir
banner