
FH seldi á dögunum tvo leikmenn erlendis úr kvennaliði sínu. Arna Eiríksdóttir var keypt til norsku meistaranna í Vålerenga og Elísa Lana Sigurjónsdóttir var seld til Kristianstad í Svíþjóð.
Fótbolti.net ræddi við Davíð Þór Viðarsson sem er yfirmaður fótboltamála hjá FH.
Fótbolti.net ræddi við Davíð Þór Viðarsson sem er yfirmaður fótboltamála hjá FH.
Mjög mikið stolt
„Það eru tvær hliðar á þessu, auðvitað erum við missa tvo algjöra lykilmenn úr liðinu á frekar krítísku augnabliki. Við erum í 2. sæti og svona fram að þessum Blikaleik vorum við í fínum séns að berjast um efsta sætið, líkurnar minnkuðu eftir þann leik, en það er alltaf von þegar það er dálítið mikið af stigum eftir í pottinum. Það sem trompar eftirsjána er það að við erum komin á þann stað að við séum farin að selja leikmenn beint frá okkur erlendis. Það eru sérstaklega þrjár sem eru uppaldar í FH en fóru annað áður en þær fóru erlendis; Karólína Lea Vilhjálmsdóttir, Diljá Ýr Zomers og Guðný Árnadóttir. Núna erum við komin á þann stað, það öflugt lið, að það eru félög erlendis að taka eftir leikmönnunum okkar."
„Arna er dæmi um leikmann sem náði ekki alveg að vinna sig inn í liðið hjá uppeldisfélaginu sínu, kemur til okkar og er búin að vera stórkostleg frá því að hún kom, og sérstaklega frá því hún kom alfarið, verið fyrirliði og algjör leiðtogi fyrir þetta lið - þvílík fyrirmynd bæði fyrir aðra leikmenn í liðinu og yngri iðkendur. Ég samgleðst henni ótrúlega mikið."
„Og alveg eins með Elísu Lönu, stelpa sem er uppalin hérna, kom mjög ung upp í meistaraflokkinn og beið svo mjög þolinmóð eftir því að verða lykilmaður í liðinu. Síðustu tvö tímabil er hún búin að vera virkilega góð og á þessu tímabili er hún búin að vera mögnuð - hefur algjörlega sprungið út. Það hefur ekki skipt máli hvort hún hafi spilað aftarlega á miðjunni eða framarlega, mér fannst hún mjög ráðandi (e. dominant) í langflestum leikjum sem hún spilaði."
„Ég er mjög stoltur af því að við séum komnir á þennan stað kvennamegin, á ekki von á öðru en að þetta haldi áfram. Það er mikið af efnilegum stelpum, bæði stelpum sem eru komnar inn í meistaraflokkinn og í kringum liðið, eða eru í ÍH og yngri flokkunum."
Stærra hlutverk í boði hjá FH en Val
Arna lék með FH á láni sumarið 2023 og gekk svo alfarið í raðir FH fyrir tímabilið 2024. Var flókið mál að fá hana yfir?
„Það var alltaf vilji okkar að fá hana yfir, þetta tók dálítið langan tíma, þurftum að bíða en það náðist. Við keyptum hana, hún er Valsari og ég held að hún hefði alltaf viljað sjá hvort hún myndi fá tækifæri hjá Val. Þau tækifæri voru bara af skornum skammti og ég held að hún hafi ekki séð fram á fleiri tækifæri, sem var mjög heppilegt fyrir okkur."
Bara tímaspursmál
Thelma Karen Pálmadóttir (2008) hefur átt mjög eftirtektarvert tímabil og verið orðuð við atvinnumennsku. Lítur þú á það þannig að það sé tímaspursmál hvenær hún fari út?
„Já, ég held að þegar að því kemur að hún vill fara út þá verði engin spurning um að það muni gerast. Það var áhugi á henni í sumar en bæði hún, foreldrar og við hjá félaginu vorum öll sammála um að það væri gott fyrir hana að klára tímabilið hérna heima og svo yrðu málin bara skoðuð í haust. Maður þarf ekki að fylgjast mjög mikið með kvennafótboltanum á Íslandi til að átta sig á því að hún er með gríðarlega mikla hæfileika og möguleika á því að verða mjög góður leikmaður. Stutta svarið er já, það er bara tímaspursmál," segir Davíð.
Thelma Karen er í byrjunarliði FH sem tekur á móti Víkingi í 17. umferð Bestu deildarinnar. Sá leikur hefst klukkan 18:00 og fer fram á Kaplakrikavelli.
Besta-deild kvenna
Lið | L | U | J | T | Mörk | mun | Stig |
---|---|---|---|---|---|---|---|
1. Breiðablik | 16 | 14 | 1 | 1 | 63 - 12 | +51 | 43 |
2. FH | 17 | 11 | 2 | 4 | 40 - 21 | +19 | 35 |
3. Þróttur R. | 16 | 9 | 3 | 4 | 29 - 20 | +9 | 30 |
4. Stjarnan | 17 | 8 | 1 | 8 | 29 - 32 | -3 | 25 |
5. Valur | 16 | 7 | 3 | 6 | 24 - 24 | 0 | 24 |
6. Víkingur R. | 17 | 7 | 1 | 9 | 36 - 39 | -3 | 22 |
7. Þór/KA | 16 | 7 | 0 | 9 | 29 - 31 | -2 | 21 |
8. Fram | 17 | 6 | 0 | 11 | 23 - 43 | -20 | 18 |
9. Tindastóll | 16 | 5 | 2 | 9 | 20 - 34 | -14 | 17 |
10. FHL | 16 | 1 | 1 | 14 | 10 - 47 | -37 | 4 |
Athugasemdir