Arsenal, Chelsea og Man Utd hafa áhuga á Vlahovic - Liverpool reynir að halda stjörnunum - City gæti krækt í Zubimendi
   þri 12. nóvember 2024 12:18
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Axel óskaði sjálfur eftir riftun - „Fann hversu ótrúlega sérstakur þessi klúbbur er"
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fyrir rúmri viku síðan staðfesti Axel Óskar Andrésson í samtali við Vísi að hann væri farinn frá KR. Varnarmaðurinn skrifaði undir þriggja ára samning síðasta vetur en óskaði eftir riftun í haust og félagið samþykkti það.

KR kvaddi Axel með tilkynningu á samfélagsmiðlum í dag.

„Knattspyrnudeild KR þakkar Axel Óskari fyrir framlag hans til félagsins á liðnu tímabili. Axel Óskar er heiðursmaður mikill og frábær félagi, en hann óskaði eftir að fá samningi sínum rift, sem félagið samþykkti. Við óskum Axel velfarnaðar á nýjum vettvangi og þökkum fyrir framlag hans til félagsins og góð kynni," segir í tilkynningu KR.

Þar er eftirfarandi haft eftir Axel sjálfum: „Takk KR-ingar fyrir minn stutta tíma hjá félaginu. Þrátt fyrir að hafa eingöngu verið eitt tímabil hjá KR og þótt að það hafi verið strembið, þá fann maður fyrir hversu ótrúlega sérstakur þessi klúbbur er. Áran yfir Meistaravöllum er ólýsanleg og ég elska fólkið sem kemur að klúbbnum. Ég óska KR alls hins besta í framtíðinni."

Hann sagði við Vísi 2. nóvember að hann væri með nokkur tilboð frá félögum hérlendis og eitt erlendis frá. Hann hefur verið orðaður við uppeldisfélagið Aftureldingu en sömuleiðis hefur hann sterklega verið orðaður við ÍA.

Axel Óskar er 26 ára miðvörður sem gekk í raðir Reading árið 2014. Sem atvinnumaður var hann samningsbundinn Reading, Viking, Riga og síðast Örebro. Hann á að baki tvo A-landsleiki. Hann skoraði fjögur mörk fyrir KR í alls 23 leikjum í deild og bikar.

Hann fékk mikla gagnrýni fyrir frammistöðu sína í sumar en miklar væntingar voru gerðar til hans eftir heimkomuna úr atvinnumennsku erlendis.

Athugasemdir
banner
banner
banner
banner